Sveinn syrgir náinn vin frá Gaza

Ali Abu Afas og Sveinn Rúnar.
Ali Abu Afas og Sveinn Rúnar. Úr einkasafni.

„Ég hef aldrei grátið jafn ógurlega eins og þegar mér bárust fréttirnar í gær,“ segir Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og formaður félagsins Ísland-Palestína. Náinn vinur hans og samstarfsmaður til nokkurra ára, Ali Abu Afash, lét lífið á gær þegar sprengja sprakk á Gaza. 

mbl.is varar við myndum sem fylgja fréttinni. 

Ali lætur eftir sig eiginkonu og tvær dætur, tveggja ára og fimm ára. Hann starfaði sem leiðsögumaður og var hann á ferð með erlenda ferðamenn að fylgdust með hópi sem aftengir sprengjur sem Ísraelsher hefur varpað, en hafa ekki sprungið. Ein sprengjan sprakk með þeim afleiðingum að Ali og tveir aðrir létu lífið. 

Ali var alltaf til staðar, leysti úr hverjum vanda

Sveinn Rúnar og Ali kynntust í maí 2009. Þá var Sveinn í ferð með starfsmönnum Össurs vegna gervilimaverkefni félagsins. Ali starfaði hjá hjálparsamtökunum, UHWM, Læknishjálpanefndunum sem reka sjúkrahús, heilsugæslur, dagheimili og fleira. 

„Þetta eru samtök sem félagið hefur stutt um árabil en hann var þar upplýsingatæknistjóri. Vegna sinna einstöku mannlegu eiginlega var honum einnig falið að taka á móti erlendum gestum,“ segir Sveinn Rúnar. Upp frá þessu voru vinirnir í stöðugu sambandi en Sveinn heimsækir Gaza að minnsta kosti einu sinni á ári.

„Ali hefur ævinlega verið þar til staðar, verið með mér öllum stundum og leyst úr hverjum vanda. Þess vegna tók ég upp á því að kalla  hann Ali Baba, hann var næmur á mig og kannski var það gagnkvæmt. Hann vissi oftast hvað ég ætlaði að segja, ef mig vantaði eitthvað var hann kominn með það. Þessir töfrar í persónu hans urðu til þess að ég gaf honum nafnið,“ segir Sveinn Rúnar.

Sá fjölskylduna sjaldan síðustu vikurnar

Mikið hefur mætt á Ali síðustu vikur. Hann starfaði sem leiðsögumaður og túlkur fyrir erlenda fjölmiðlamenn sem komu til afla frétta um ástandið á Gaza.

„Hann gaf sig gjörsamlega í starfið og aðstæður hafa verið þannig að hann sá lítið af fjölskyldu sinni síðustu vikur,“ segir Sveinn Rúnar og bætir við að Ali komist heim í um hálftíma á dag síðustu daga til að faðma stúlkurnar sínar.

Ali var giftur barnalækninum Shereen og áttu þau tvær dætur, Majd og Wajd. Dæturnar eru fimm og tveggja ára. Fjölskyldan bjó í fjögurra hæða húsi. Foreldrar Ali búa á annarri hæð hússins ásamt ógiftum systrum hans, Ali á þriðju hæðinni ásamt Shereen og dætrunum, eldri bróðir Ali á efstu hæðinni og yngri bróðir hans á fyrstu hæð.

„Fyrir tveimur vikum fjölgaði verulega í húsinu þegar þrjátíu manna fjölskylda kom eftir að hús þeirra var sprengt upp. Stuttu síðar urðu þau einnig að yfirgefa húsið og fengu inni hjá systur Ali og öðrum ættingjum,“ segir Sveinn Rúnar.

Vinirnir ræddu oft saman á kvöldin og fram á nótt. „Við kölluðum hann heiðurskonsúl félagsins, allsherjarreddara, og lagði ég öll mál undir hann,“ segir Sveinn Rúnar.

Skarðið verður seint fyllt

Sveinn Rúnar hefur nú misst góðan vin og mikilvægan samstarfsfélaga. Hann segir að skarð Ali verði seint fyllt og hann hafi aldrei grátið jafn ógurlega og í gærkvöldi þegar honum bárust fréttirnar af andláti Ali.

„Var ég þá um leið að gráta alla hina sem hafa látið lífið að undanförnu,“ veltir Sveinn Rúnar fyrir sér. Hann segist vissulega hafa grátið vegna þeirra en sorgin í gær hafi ef til vill verið uppsöfnuð sorg.

„Ali stendur fyrir svo mikið, hann er persónugerving Palestínumannsins sem maður mætir í þessum óhugnaði. Hann var alltaf með milt bros á vör, hvað sem á gekk, alltaf tilbúinn að hlægja, gafst ekki upp, átti óskiljanlega ást og umburðarlyndi og gestristni sem maður mætir hvarvetna. Hann sameinaði þetta allt saman.“ 

Ali Abu Afash ásamt dætrum sínum, Majd og Wajd.
Ali Abu Afash ásamt dætrum sínum, Majd og Wajd. Úr einkasafni.
Ali Abu Afash heimsótti Svein Rúnar og fjölskyldu hans sumarið …
Ali Abu Afash heimsótti Svein Rúnar og fjölskyldu hans sumarið 2012.
Ali Abu Afash, lét lífið á gær þegar sprengja sprakk …
Ali Abu Afash, lét lífið á gær þegar sprengja sprakk á Gaza.
Shereen við dánarbeð Ali.
Shereen við dánarbeð Ali.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka