Í kjölfar krapprar lægðar sem fer í nótt austur með suðurströndinni, hvessir af norðri um land allt í nótt og framan af morgundeginum, víða 13-18 m/s.
Varasamar vindhviður, allt að 30-40 m/s, verða við þessar aðstæður á þjóðveginum suðaustanlands frá Fagurhólsmýri í Öræfum austur á Berufjarðarströnd frá því snemma í fyrramálið og fram yfir miðjan dag, segir í ábendingum veðurfræðings Vegagerðarinnar.
Það sama á við á sunnanverðu Snæfellsnesi í nótt og fyrst í fyrramálið. Svo og á stöku stað undir Eyjafjöllum og í Mýrdal þar sem byljóttur vindur kemur til með að standa þvert á akstursstefnu. Þar gengur mikið niður upp úr hádegi. Suðaustanlands fylgir gjarnan sandfok veðri eins og þessu, jafnvel þó svo að rigni eitthvað á undan í kvöld.
Fylgist með á veðurvef mbl.is.