Óttast fjandsamlega yfirtöku á DV

Starfsmenn DV hafa áhyggjur af væringum um eignarhald félagsins og því sem þeim virðist vera „tilraun til fjandsamlegrar yfirtöku,“ eins og það er orðað í yfirlýsingu frá starfsmannafélaginu. Ekki liggi ljóst fyrir hverjir fjármagni í raun kaupin og óttast starfsmenn því um ritstjórnarlegt sjálfstæði miðilsins.

Fréttastofa Rúv greindi frá því fyrr í vikunni að mikil átök séu nú um eignarhald á DV. Stjórnarformaðurinn, Þorsteinn Guðnason, keypti hlut í félaginu og greiddi að hluta fyrir það með hlut í vefsíðunni eiríkurjonsson.is. Aðrir stjórnarmenn í DV ehf. voru að sögn Rúv afar ósáttir við þessi viðskipti, bæði vegna efasemda um að eirikurjonsson.is væri eins mikils virði og Þorsteinn héldi fram og eins vegna þess að Þorsteinn hafi setið báðum megin borðsins þegar hann seldi eigin félagi hlutinn í DV.

Þorsteinn var í kjölfarið settur af sem stjórnarformaður DV ehf., þar sem hann naut ekki lengur trausts eða trúnaðar annarra stjórnarmanna. Samkvæmt Rúv virðist sem þetta sé hluti af stærri átökum um völdin yfir DV, því eftir að Þorsteinn var settur af keypti félag í hans eigu hlut Lilju Skaftadóttur í DV, en hún var stærsti hluthafinn í blaðinu. Félög í eigu Þorsteins og honum tengd eiga því stóran hlut í blaðinu núna.

Í yfirlýsingunni, sem almennir starfsmenn DV sendu frá sér í dag, undirstrika þeir stuðning sinn við þá ritstjórnarstefnu sem haldið er úti undir merkjum DV. Af samtölum starfsmanna við stjórnarmenn DV ehf. megi ráða að Þorsteinn hafi m.a. fundið að því að félagið greiði málskostnað og bætur, vegna málaferla á hendur einstaka blaðamanni.

„Ef breyting yrði þar á yrði vegið að grunngildum ritstjórnarlegs frelsis og jafnframt farið gegn nýsettum fjölmiðlalögum,“ segir í yfirlýsingunni. „Starfsmenn DV vilja undirstrika að þeir muni standa vörð um óháða og frjálsa fjölmiðlun.“

Yfirlýsing frá Þorsteini Guðnasyni

Uppfært kl. 15:54: Þorsteinn Guðnason hefur nú einnig sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem hann segist, vegna „furðulegra ásakana um að í aðsigi sé fjandsamleg yfirtaka á DV“, vilja taka eftirfarandi fram:

1. „Allt tal um fjandsamlega yfirtöku er úr lausi lofti gripið. Ég gerðist stjórnarformaður DV meðal annars fyrir orð Reynis Traustasonar ritstjóra blaðsins og hef lagt til þess umtalsverða fjármuni sem hluthafi og lánveitandi. Upphaf þessa má rekja til þess að stjórnendur blaðsins töldu stefna í gjaldþrot og leituðu eftir fjármögnun og nýju hlutafé til að koma í veg fyrir slíkt. Við því var orðið og hafa umtalsverðir fjármunir verið settir í rekstur DV undanfarna mánuði og misseri.“

2. Um skeið hefur verið ljóst, að núverandi stjórn DV endurspeglaði ekki raunverulega eigendur fyrirtækisins. Ég lét þá skoðun í ljós á síðasta stjórnarfundi, sagði þáverandi stjórn óstarfhæfa og lagði til hluthafafund til að endurskipa í stjórn í samræmi við rétt eignarhlutföll og sleit svo fundi. Eftir að ég vék af fundinum var annar kosinn í minn stað sem stjórnarformaður. Lögmaður meirihlutaeigenda DV hefur komið því á framfæri við stjórn að engar meiriháttar ákvarðanir verði teknar fram að aðalfundi síðar í mánuðinum.

3. Starfsmenn DV sendu frá sér yfirlýsingu í dag, þar sem þeir segjast óttast fjandsamlega yfirtöku. Ljóst er að þeim hafa verið gefnar rangar upplýsingar um eignarhald blaðsins. Ég get fullvissað starfsmenn blaðsins um að ekki stendur til neitt annað en að efla það á næstunni og að rekstur DV stendur styrkum fótum, m.a. fyrir tilstilli aðgerða sem hluthafar blaðsins hafa ráðist í á undanförnum misserum. Ég tek undir með starfsmönnum DV um mikilvægi þess að standa áfram vörð um óháða og frjálsa fjölmiðlun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert