Umferð hesta takmörkuð í Reykjadal

Mælst er til þess að ekki verði farið með hesta um Reykjadal í Ölfusi fram á haust, jafnvel lengur. Nú standa yfir framkvæmdir í dalnum þar sem meðal annars á að lagfæra stíga og setja brýr yfir hættulegustu svæðin. Þetta segir Ari Eggertsson, umhverfisfulltrúi Hveragerðis, í samtali við mbl.is.

Ekki er vanþörf á framkvæmdum í dalnum sem hefur notið gífurlegra vinsælda að undanförnu, bæði meðal Íslendinga og erlendra ferðamanna. Áður var svæðið vel varðveitt perla þar sem ríkti kyrrð og ró en nú er mun meiri umferð og náttúran ber þess merki að þar fari reglulega um fólk og hestar.  

Unnið verðu ofan frá heiðinni niður í dalinn frá Klambragili. Búið er að lagfæra gönguleiðina fyrsta hluta leiðarinnar þegar komið er að ám sem þarf að vaða, hoppa eða stíga yfir taka við moldarsvöð sem ná göngufólki jafnvel upp á miðja kálfa.

Mikilvægt að takmarka umferðina

Ari segir að mikilvægt hafi verið að takmarka umferð hesta í dalnum á meðan á framkvæmdum stendur, að minnsta kosti frá miðri gönguleiðinni upp í dalinn. Þegar er búið að koma fyrir einu hestagerði í Kambagili þar sem hægt er að skilja hesta eftir á meðal farið er í heitu laugarnar í dalnum. Umferð fólks um dalinn verður ekki takmörkuð á meðan á framkvæmdum stendur. 

Búið er að gefa út yfirlýsingu þar sem hestafólk er hvatt til að virða takmörkun umferðar í dalnum og þá er búið að hafa samband við ferðaþjónustufyrirtæki sem fara með ferðamenn um svæðið. Ekki hafa verið sett upp skilti sem benda á takmarkaða umferð hrossa. 

Ökklabrot og brunasár á báðum fótum

Á annan tug björgunarmanna frá björgunarsveitum í Árnessýslu sótti slasaða göngukonu í Reykjadal í gær. Var hún borin á börum niður á bílastæði við Hveragerði þar sem sjúkrabifreið beið hennar og flutti hana á sjúkrahús. Talið var að konan hefði ökklabrotnað. 

Um miðjan júní slasaðist maður sem var á göngu í dalnum en slysið bar að með þeim hætti að maðurinn steig í hver og brann illa á báðum fótum. Sjúkra­bíll var send­ur á slóðann á Ölkeldu­hálsi og þaðan fóru sjúkra­flutn­inga­menn að slysstað. 

Mikil umferð en þó rólegra en oft áður

Að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, verða flest óhöppin á gönguleiðinni í dalnum. Í samtali við hana í Morgunblaðinu í dag segir hún að björgunarsveitir hefðu oft verið kallaðar út í Reykjadal að undanförnu vegna slasaðra ferðamanna.  

„Gönguleiðin er fjölfarin og þarna leynast einnig ýmsar hættur, svo sem hverir. Þá er töluvert mikið um að fólk meiði sig þarna, hvort sem það brennir sig eða misstígur sig og tognar eða jafnvel fótbrotnar,“ sagði Ólöf til skýringar.

Kristinn Ingi Helgason, formaður hjálparsveitar Skáta í Hveragerði, segir að mikil umferð sé um dalinn en sumarið hafi þó verið rólegt miðað við fyrri sumur. Aðspurður segir hann að ýmsar ástæður geti legið að baki, til að mynda vætusamt sumar og að göngustígar á leiðinni hafi verið lagfærðir.

Leiðin inn í Reykjadal. Náttúran lætur á sjá við aukna …
Leiðin inn í Reykjadal. Náttúran lætur á sjá við aukna umferð. Morgunblaðið/RAX
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert