Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað konu af kröfu Arion banka um að þola fjárnám í fasteign hennar vegna veðs sem hún lánaði syni sínum. Er bankanum gert að greiða málskostnað konunnar upp á 450 þúsund krónur.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur m.a. fram, að helstu málsatvik séu þau að sonurinn fékk veðskuldabréf hjá Kaupþingi banka árið 2007 upp á 3,5 milljónir króna, með veði í íbúð sinni í Kópavogi. Var hann þá að kaupa íbúð í vesturbæ Reykjavíkur og í desember sama ár var gefið út tryggingarbréf í Kaupþingi upp á 9,7 milljónir, til tryggingar skuldum hans og með veði í nýju íbúðinni.
Erfiðlega gekk að selja íbúðina í Kópavogi og í júní 2008 var veðskuldabréfið gjaldfellt. Í ágúst 2008 var síðan gefinn út viðauki við tryggingabréfið, en eftirstöðvarnar voru þá komnar í 10,6 milljónir kr. Viðaukabréfið var tryggt með 5. veðrétti í fasteign móðurinnar, en hún hafði þá ritað undir viðaukann og samþykkt að fasteign hennar yrði sett að veði.