Búist við fjölmenni í Hveragerði

Frá Ísdeginum í fyrra.
Frá Ísdeginum í fyrra. Ljósmynd/Kjörís

Í dag verður hinn árlegi Ísdagur Kjöríss haldinn hátíðlegur en hann fer fram í áttunda sinn. Dagurinn er haldinn í samstarfi við bæjarhátíðina Blómstrandi daga og geta gestir því einnig heimsótt plöntu- og grænmetismarkaði. Undanfarin ár hefur fjöldi fólks farið í ísbíltúr til Hveragerðis á þessum degi og í fyrra voru gestir á Ísdeginum um átján þúsund þúsund talsins.

Á Ísdeginum er lögð sérstök ísleiðsla úr verksmiðju Kjöríss og út á bílaplan. Þar er ísnum svo dælt ofan í gesti sem mega borða eins mikið af ís og þeir geta í sig látið. Í fyrra runnu 2,5 tonn af ís ofan í gesti.

Ásamt hinum hefðbunda ís verður einnig, líkt og fyrri ár, boðið upp á alls kyns ólíkindabrögð sem er hluti af vöruþróun fyrirtækisins. Ísgerðarmenn Kjöríss hafa undanfarna daga verið að prófa sig áfram með tugi óvenjulegra ístegunda eins og sveskjuís, kotasæluís, harðfisksís, Skittlesís og Rauðan Ópalís, svo ekki sé minnst á Búbís sem er unninn úr brjóstamjólk.

Í ár verður landaþema og á meðal þeirra landa sem  ísgerðarmennirnir horfðu til eru Brasilía (kaffi), Írland (Guinness), Bandaríkin (hnetusmjör), Austurríki (Mozart kúlur) og Indland (karrý, múskat og engifer).

Gestir Ísdagsins geta tekið þátt í vöruþróun fyrirtækisins með því að smakka og gefa ísunum einkunn. Dæmi eru um að óvenjulegar ístegundir sem slá í gegn á hátíðinni hafi farið í almenna framleiðslu hjá fyrirtækinu, að því er segir í tilkynningu.

Sjá frétt mbl.is: Hveragerði blómstrar um helgina

Ljósmynd/Kjörís
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert