Gæti verið undanfari eldgoss

Ari Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur.
Ari Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ljóst að það eru ekki ein­ung­is ein­hverj­ar gliðnun­ar­hreyf­ing­ar í gangi. Það er eitt­hvað meira í gangi, það sem sem menn kalla kviku­hreyf­ing­ar sem eru á meira dýpi en 5-10 kíló­metr­ar. Hvort þetta stopp­ar þar eða held­ur áfram á eft­ir að koma í ljós.“

Þetta seg­ir Ari Trausti Guðmunds­son jarðeðlis­fræðing­ur í sam­tali við mbl.is vegna jarðskjálfta­hrin­unn­ar sem verið hef­ur í gangi við Bárðarbungu í norðan­verðum Vatna­jökli frá því síðustu nótt. Hundruð skjálfta hafa mælst síðan hrin­an hófst og hafa þeir stærstu verið í kring­um þrjú stig sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Veður­stof­unni. Rík­is­lög­reglu­stjóri hef­ur lýst yfir óvissu­stigi vegna jarðhrær­ing­anna í sam­ráði við lög­reglu­stjór­ana á Húsa­vík og Hvols­velli. Ari bend­ir á að það hafi oft gerst að inn­skot upp í skorpu eld­stöðva og skjálfta­virkni hafi átt sér stað nokkr­um árum áður en til eld­goss kom. Til að mynda í til­felli Eyja­fjalla­jök­uls.

„Þannig að þetta gæti verið eitt­hvað slíkt. En á móti eru líka lík­ur á að þetta nái alla leiðina upp úr,“ seg­ir hann. Hann seg­ir miðjur jarðskjálft­anna ekki vera í meg­in­eld­stöðinni sjálfri held­ur aust­an og norðaust­an við sjálfa öskj­una sem er und­ir ísn­um. Ef það gysi þar yrði um gjóskugos að ræða þar sem gosið yrði und­ir Dyngju­jökli. En ef ef það yrði aðeins lengra til norðaust­urs yrði það úti á Dyngju­hálsi. Hann seg­ir vel mögu­legt að til eld­goss gæti komið þó ekki sé hægt að vita það með vissu á þessu stigi máls­ins.

„Ef þetta verður viðvar­andi, og sér­stak­lega ef það verða stærri skjálft­ar, þá væri það und­an­fari goss og þá væri það jafn­vel bara spurs­mál um klukku­tíma. Eða jafn­vel nán­ast byrj­un á gosi,“ seg­ir Ari Trausti enn­frem­ur. Til að mynda ef skjálft­arn­ir yrði á bil­inu 4-4,5.

Vatnajökull. Bárðarbunga ofarlega til vinstri.
Vatna­jök­ull. Bárðarbunga of­ar­lega til vinstri. Nat.is
Horft yfir norðvest­an­verðan Vatna­jök­ul þar sem Bárðarbunga er.
Horft yfir norðvest­an­verðan Vatna­jök­ul þar sem Bárðarbunga er. mbl.is/​Sig­urður Bogi Sæv­ars­son
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert