Áframhaldandi jarðskjálftavirkni

Bárðarbunga.
Bárðarbunga. mbl.is/Sigurður Bogi

Vel yfir 1.100 jarðskjálftar hafa mælst við Bárðarbungu á Vatnajökli undanfarna tvo sólarhringa. Þar af hafa um 700 skjálftar mælst á svæðinu frá því á miðnætti. Um er að ræða stærstu jarðskjálftahrinu við Bárðarbungu í fleiri ár.

Jarðskjálftahrinan er enn í gangi og hafa GPS-gögn staðfest að um er að ræða kvikuhreyfingar. Eng­in kvika hef­ur hins vegar komið upp á yf­ir­borðið, und­ir jökl­in­um, hingað til.

Flestir skjálftanna hafa verið tiltölulega smáir, eða á bilinu einn til tveir að stærð. Nokkrir skjálftar hafa mælst yfir þrír að stærð og sá sterkasti var 3,5 á Richter. Upptök jarðskjálftanna eru á um tíu kílómetra dýpi.

Fundað var í morgun með starfsmönnum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnu þar sem farið var yfir stöðuna.

Jarðskjálftavirknin er mest áberandi á tveimur þyrpingum norðan og austan Bárðarbungu.  Engin merki eru sjáanleg um að gos sé hafið en áfram er fylgst með framvindu mála þar sem atburðarás sem þessi kann að vera undanfari eldgoss, að sögn vísindamanna.

Rögnvaldur Ólafsson, verkefnastjóri hjá almannavarnadeild, sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að vísindamenn hefðu aukið vöktun sína á svæðinu og þá hefðu lögreglustjórarnir á Húsavík, Hvolsvelli og Seyðisfirði, auk Vatnajökulsþjóðgarðs, jafnframt farið yfir sínar viðbragðsáætlanir.

Svipast um eftir breytingum á yfirborðinu

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í dag með vísindamenn og starfsmenn almannavarnadeildar upp á Vatnajökul. Í þeirri ferð var bætt við mælitækjum og vefmyndavélum sem er liður í aukinni vöktun á jöklinum auk þess sem svipast var um eftir breytingum á yfirborði jökulsins og mannaferðum á svæðinu.

Þá ákvað lögreglustjórinn á Húsavík í kvöld að loka Gæsavatnaleið og öðrum hálendisvegum austan Skjálfandafljóts að Öskju. Vegi F88 að Herðubreiðarlindum var einnig lokað vegna mögulegra flóða á svæðinu í kjölfar eldgoss.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert