Engin merki eru um að eldgos sé hafið við Bárðarbungu samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands en tekið fram að ekki sé hægt að útiloka að atburðarásin sem sé í gangi leiði til eldgoss undir Vatnajökli eða undan honum.
Fram kemur að jarðskjálftahrinan sem hófst um klukkan þrjú aðfararnótt laugardags sé enn í gangi en virknin hafi færst til og sé nú í tveimur þyrpingum, norðan og austan við Bárðarbungu. Vísindamenn telji að virknin orsakist af innskotavirkni kviku í jarðskorpunni. Þá segir að gos undir jökli geti leitt til flóða i ám sem renna frá honum. Vísindamenn og Almannavarnir fylgist vel með ástandinu og óvissustig sé enn í gildi.