Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur veltir upp þeim möguleika í grein á vef sínum hvort kröftugur jarðskjálfi að stærð fimm á Richter sé það sem þarf til að koma af stað eldgosi í Bárðarbungu á Vatnajökli.
Í greininni fjallar hann um innri gerð Bárðarbungu og fer yfir sögu óvenjulegra jarðskjálfta í eldfjallinu. Vitnar hann meðal annars í rannsóknir prófessorsins Görans Ekström. Ekström segir að undir Bárðarbungu sé keilulaga jarðskorputappi og telur hann að skjálftar í eldstöðinni, sem séu af stærðinni yfir fimm stig á Richter, séu afleiðing af þrýstingi af þessum tappa.
„Nú virðist skjálftavirknin raða sér í hringlaga form eftir útlínum öskjunnar. Er það orsakað af hreyfingu tappans, sem Ekström sér undir Bárðarbungu? Er þá kvika að safnast fyrir í grunnu kvikuþrónni ofan tappans? Samkvæmt hans líkani er þá von á skjálftum af stærðargráðunni 5, þegar tappinn þrystist niður,“ segir Haraldur í grein sinni.
Enn eru engin merki um að eldgos sé hafið við Bárðarbungu, en sérfræðingar hafa tekið fram að ekki sé hægt að útiloka að atburðarásin sem sé í gangi leiði að lokum til eldgoss undir Vatnajökli eða undan honum.
Jarðskjálftahrinan sem hófst um klukkan þrjú aðfaranótt laugardags er enn í gangi, en virknin hefur hins vegar færst til og er nú í tveimur þyrpingum, norðan og austan við Bárðarbungu. Vísindamenn telja að virknin orsakist af innskotavirkni kviku í jarðskorpunni. Gos undir jökli getur leitt til flóða i ám sem renna frá honum. Vísindamenn og Almannavarnir fylgjast vel með ástandinu og er óvissustig enn í gildi.