Leiðum lokað vegna skjálftaóróa

Bárðarbunga á Vatnajökli.
Bárðarbunga á Vatnajökli. mbl.is/Sigurður Bogi

Lögreglustjórinn á Húsavík hefur lokað hluta Gæsavatnaleiðar og leiða að Herðubreiðarlindum í varúðarskyni vegna jarðhræringa við Bárðarbungu á Vatnajökli. Rögnvaldur Ólafsson, verkefnastjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir í samtali við mbl.is að allir séu í viðbragsstöðu. Enn sé viðvarandi jarðskjálftahrina norðan og austan við Bárðarbungu.

Engin kvika hefur komið upp á yfirborðið, undir jöklinum, en þó eru greinileg merki um kvikuhreyfingar í eldstöðinni.

Rögnvaldur segir að almannavarnadeildin fylgist grannt með gangi máli í samvinnu við jarðvísindamenn. Ákveðið hafi verið á fundi með starfsmönnum almannavarnadeildar, Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar í morgun að fá þyrlu Landhelgisgæslunnar til að fljúga með vísindamenn að Bárðarbungu. Lagt var af stað frá Reykjavík um fjögurleytið í dag.

„Ætlunin er að bæta við jarðskjálftamælum á svæðinu og setja upp vefmyndavélar. Eins viljum við breyta aðeins stefnu á öðrum vefmyndavélum þarna upp frá,“ segir Rögnvaldur. Eins sé markmiðið að fljúga yfir jökulinn og reyna að átta sig á yfirborði hans, hvort einhverjar breytingar séu sjáanlegar. 

Rögnvaldur segir að þetta sé liður í aukinni vöktun á jöklinum.

Fara yfir viðbragðsáætlanir

Enn eru engin merki um að eldgos sé hafið við Bárðarbungu. Vísindamenn hafa þó tekið fram að ekki sé hægt að útiloka að atburðarásin, sem hefur verið í gangi, leiði að lokum til eldgoss undir Vatnajökli eða undan honum.

Jarðskjálfta­hrin­an sem hófst um klukk­an þrjú aðfar­anótt laug­ar­dags er enn í gangi, en virkn­in hef­ur hins veg­ar færst til og er nú í tveim­ur þyrp­ing­um, norðan og aust­an við Bárðarbungu.

Vísindamenn hafa aukið vöktun sína á svæðinu og lögreglustjórarnir á Húsavík, Hvolsvelli og Seyðisfirði auk Vatnajökulsþjóðgarðs hafa farið yfir sínar áætlanir.

Vís­inda­menn telja að virkn­in or­sak­ist af inn­skota­virkni kviku í jarðskorp­unni. Gos und­ir jökli get­ur leitt til flóða i ám sem renna frá hon­um. Óvissu­stig er enn í gildi.

Leiðum að Herðubreiðarlindum hefur verið lokað.
Leiðum að Herðubreiðarlindum hefur verið lokað. mbl.is/Birkir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka