Hið sögufræga Gröndalshús verður komið fyrir í Grjótaþorpinu að Vesturgötu 5. Frá þessu er greint á vef Reykjavíkurborgar í dag. Í þessari viku hefjast framkvæmdir á lóðinni og áætlað er að verklok verði í júní 2015.
Húsið á sér yfir 150 ára sögu. Sigurður Jónsson, járnsmiður, byggði húsið úr timbri sem barst til Íslands eftir að hafa rekið mannlaust um hafið og strandað í Höfnum. Árið 1888 eignaðist Benedikt Gröndal húsið og hefur það síðan verið kennt við hann.
Fyrir nokkru var húsið flutt frá upphaflegu staðsetningu sinni. Var það endurgert að utan á verkstæði úti á Granda. Reykjavíkurborg keypti húsið til varðveislu vegna menningarlegs gildis þess og er það Minjavernd sem sér um framkvæmdir við nýjan grunn og flutning hússins.
Sjá frétt á vef Reykjavíkurborgar.