Verkalýðsforingjar í ASÍ búa sig undir harðar kjaraviðræður í vetur.
Viðræðurnar hefjast formlega um næstu mánaðamót, en fyrst um sinn verða almennari samningsatriði rædd, áður en samið verður um laun.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sem hefur gagnrýnt hækkandi laun stjórnenda fyrirtækja, segir að ef menn vilji hafa misskiptinguna í fyrirrúmi, þá muni ASÍ ekki semja um stöðugleika, heldur taka það sem því beri og hvetja félagsmenn til að beita því afli sem verkalýðshreyfingin búi yfir. Þá telur Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag, að ekki hafi tekist að ná samstöðu á atvinnumarkaði um hóflegar launahækkanir.