Óvissan mikil

Hér gefur að líta þær miklu jarðhræringar sem eiga sér …
Hér gefur að líta þær miklu jarðhræringar sem eiga sér nú stað í og við Bárðarbungu. mynd/Veðurstofa Íslands

Vísindamenn koma saman á fundi með fulltrúum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra um jarðhræringarnar í Bárðarbungu klukkan 11. Farið verður yfir stöðu mála og þær mælingar sem liggja fyrir. Óvissan er enn mikil að sögn Rögnvalds Ólafssonar, verkefnisstjóra hjá almannavörnum. Engin merki eru sjáanleg um að gos sé hafið.

Fundurinn hefst klukkan 11 í húsakynnum Veðurstofu Íslands, en auk fulltrúa almannavarna munu vísindamenn Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands sitja fundinn.

Jarðskjálftahrinan er enn í gangi og líkt og greint var frá í morgun hafa mörg hundruð skjálftar mælst á svæðinu frá miðnætti en þegar þetta er skrifað er staðan að mestu óbreytt frá því í gær.

Rögnvaldur segir að farið verði yfir þær mælingar sem liggja fyrir og reynt verði að túlka þær eftir bestu getu. „Á þessum fundum erum við að reyna sjá fram í tímann, sem getur oft verið erfitt,“ segir hann.

Þá segir Rögnvaldur, að óvissan sé mjög mikil. Menn muni því m.a. ræða það hvort þörf sé á því að koma fyrir fleiri mælitækjum til að fá ítarlegri gögn og átta sig betur á mögulegri framvindu. Út frá því séu gerðar áætlanir út frá þeim sviðsmyndum sem geti komið upp. 

Lokanir enn í gildi

Líkt og fram hefur komið hafa GPS-gögn staðfest að kvikuhreyfingar eigi sér stað á svæðinu. Virknin er mest áberandi á tveimur þyrpingum norðan og austan Bárðarbungu. Líkt og almannavarnadeild greindi frá í gær, eru engin merki eru sjáanleg um að gos sé hafið en áfram er fylgst með framvindu mála þar sem atburðarrás sem þessi kann að vera undanfari eldgoss.

Vísindamenn hafa aukið vöktun sína á svæðinu og lögreglustjórarnir á Húsavík, Hvolsvelli og Seyðisfirði auk Vatnajökulsþjóðgarðs hafa farið yfir sínar áætlanir.

Í gær fór þyrla Landhelgisgæslunnar með vísindamenn og starfsmenn almannavarnadeildar upp á Vatnajökul. Í þeirri ferð var bætt við mælitækjum og vefmyndavélum sem er liður í aukinni vöktun á jöklinum auk þess sem svipast verður um eftir breytingum á yfirborði jökulsins og mannaferðum á svæðinu.

Þá ákvað lögreglustjórinn á Húsavík að loka Gæsavatnaleið og öðrum hálendisvegum austan Skjálfandafljóts að Öskju. Vegi F88 að Herðubreiðarlindum (F88) var einnig lokað vegna mögulegra flóða á svæðinu í kjölfar eldgoss.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka