Árni Þór Sigurðsson þingmaður Vinstri grænna sagði í dag af sér þingmennsku, þar sem hann mun um áramótin taka við starfi sendiherra í utanríkisþjónustunni. Í bréfi sem Árni Þór sendir flokksfélögum sínum segist hann vilja gera grein fyrir hvernig málið snýr að honum.
Árni Þór bendir á að undanfarin ár hafi starfsvettvangur hans á Alþingi einkum verið utanríkis- og alþjóðamál. Allt síðasta kjörtímabil var hann formaður utanríkismálanefndar, ásamt því að vera formaður þingmannanefndar EFTA. Um tíma átti hann líka sæti í Norðurlandaráði.
„Á vettvangi utanríkismála hef ég leitt starfið á Alþingi í málum sem okkur eru mikilvæg, eins og stefnumótun í málefnum norðurslóða, langtímaáætlun í þróunarsamvinnu og viðurkenning á sjálfstæði Palestínu. Sú reynsla sem ég hef áunnið mér á þessum vettvangi hefur einnig kveikt áhuga minn á að starfa alfarið í þágu þessara mála,“ segir Árni Þór í bréfinu.
„Snemma á þessu ári kom til álita að ég færi til starfa hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE. Í hæfnisferli sem slíkar alþjóðastofnanir gera, var ég metinn mjög vel hæfur til að gegna ábyrgðarstarfi og það hvatti mig áfram og færði mér einnig heim sanninn um að ég gæti gert gagn á sviði utanríkis- og alþjóðamála. Það er aðdragandi þess að ég fer nú til starfa í utanríkisráðuneytinu.
Árni Þór segist hafa starfað við og aflað sér menntunar á sviði alþjóðamála og hugur hans hafi í vaxandi mæli beinst að þeim málaflokki. „Það er persónuleg ákvörðun mín að söðla um og nýta menntun, reynslu og þekkingu mína á þessu sviði.“
Hann segir þessa stöðu ekki hafa verið fyrir hendi þegar hann gaf kost á sér í forvali VG fyrir síðustu alþingiskosningar, en nú sé hann þeirrar skoðunar að þetta sé góður tími til að skipta um starfsvettvang.
Steinunn Þóra Árnadóttur mun taka sæti hans á Alþingi.
Sjá einnig: