Jarðskjálftahrinan sem staðið hefur yfir við Bárðarbungu í norðanverðum Vatnajökli frá því aðfaranótt laugardags heldur áfram og er ekkert lát á henni. Samkvæmt upplýsingum af vefsíðu Veðurstofu Íslands hafa um 250 skjálftar mælst á svæðinu frá því á miðnætti.
Stærsti jarðskjálftinn í nótt mældist 2,7 en hann átti sér stað um klukkan 5:16 suðaustur af Kistufelli. Nokkrir svipaðir hafa einnig átt sér stað en enginn farið yfir 3,0 frá miðnætti. Heldur dró úr skjálftavirkninni upp úr miðnætti en hún jókst síðan aftur upp úr klukkan fjögur. Hún hefur nú minnkað á nýjan leik. Virknin gengur þannig í bylgjum eins og áður. Ljóst er að kvikuhreyfing hefur átt sér stað í tengslum við skjálftana en enn bendir ekkert til þess að kvika sé á leið upp á yfirborðið.
Hámarksvöktun verður á svæðinu áfram og óvissustig er enn í gildi. Hægt er að fylgjast með Bárðarbungu í vefmyndavél hér.