Litlar líkur á hamfarahlaupi

Jökulsá á Fjöllum
Jökulsá á Fjöllum mbl.is/Rax

Hlaup og flóð eru algeng í Jökulsá á Fjöllum em tæpar þrjár aldir eru síðan síðast urðu þar stór hlaup. Hin stærstu, s.k. hamfarahlaup, eru öll forsöguleg en stór jökulhlaup, líkt og nú gætu orðið, eru þekkt frá lokum 17. aldar og byrjun þeirrar 18. Þau ollu umtalsverðu tjóni bæði á landi, bæjum og búpeningi í Kelduhverfi og Öxarfirði en fólk bjargaðist sumt upp á þök bæja sinna.

Jökulsá á Fjöllum er eitt mesta fljót landsins og með stærsta vatnasvið nokkurs vatnsfalls á Íslandi, um 8.000 ferkílómetra. Upptök hennar eru undir Dyngjujökli, nyrst í Vatnajökli. Jarðskjálftarnir í Bárðarbungu hafa í dag verið að færast í norðaustur og er virknin nú mesta undir Dyngjujökli.

Næði niður á þjóðveg 1 á 7 klukkustundum

Vatnavárhópur Veðurstofu Íslands gerir ráð fyrir því að ef til eldgoss kæmi í svæðinu kringum Bárðarbungu yrði um að ræða sprungugos undir allt frá 150-600 metra þykkum jökli. Það þýðir að bræðsluvatn myndi renna jafnóðum undan jöklinnum og valda flóði í Jökulsá á Fjöllum, sem gæti náð frá gosstaðnum að jaðri jökulsins á rúmri klukkustund, niður að brúnni við Jökulsá við Grímsstaði á 7 klukkustundum og niður að Ásbyrgi á 9 klukkustundum.

Fyrri hlaup í Jökulsá á Fjöllum hafa verið mjög mismunandi að stærð, allt frá 200 þúsund rúmmetrum á sekúndu niður í minniháttar hlaup. Eins og staðan er núna eru taldar litlar líkur á gosi sem myndi leiða til hamfarahlaups.

Merki hamfarahlaupa fyrri tíðar sjást hvarvetna meðfram Jökulsá á Fjöllum, allt til Vatnajökuls. Einhver þeirra hafa grafið þau miklu gljúfur sem við nú köllum Ásbyrgi. Smærri flóð, sem komið hafa í Jökulsá á sögulegum tíma, hafa valdið breytingum á flatlendinu fyrir neðan Jökulsárgljúfur, samkvæmt upplýsingum frá þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum.

Öflug og stór megineldstöð

Bárðarbunga er öflug og stór megineldstöð, talin vera um 200 km löng og 25 km breið. Ísfarg Vatnajökuls liggur yfir og undir er ógnarstór askja. Mönnum var lengi kraftur fjallsins lítt kunnur en nú liggur fyrir að hún er eitt öflugasta eldfjall Íslands.

Askjan í Bárðarbungu er um 70 ferkílómetrar, allt að 10 km breið og um 700 metra djúp. Umhverfis rísa barmar sem ná allt að 1.850 metra hæð.

Skjálftavirkni hefur lengi verið viðvarandi í Bárðarbungu sem staðfestir að eldfjallið er sprelllifandi, ef svo má að orði komast. Bárðarbungueldstöðin er sömuleiðis sérstök fyrir þá sök að þar verða á stundum rek- og goshrinur utan jökulsins, sem leita til suðvesturs inn á hálendið milli Vatnajökuls og Mýrdalsjökuls eða til norðausturs í átt að Dyngjufjöllum. Stærstu gosin virðast verða þegar kvikan hleypur til suðvesturs. Á nútíma hafa þessar öflugu goshrinur orðið í kerfinu á um 250-600 ára fresti.

Stærsta hraun landsins og reyndar á jörðinni úr einu gosi á nútíma er ættað úr Bárðarbungukerfinu, það er Þjórsárhraunið sem rann fyrir um 8500 árum. Rannsóknir sýna að allmörg gos hafa orðið nærri Bárðarbungu. Goshrina kom snemma á 18. öldinni og síðast árið 1780. „Tíðir jarðskjálftar í Bárðarbungu sýna þó að þetta mikla eldfjall mun bæra á sér fyrr en varir. Þarna munu verða mikil eldgos í framtíðinni og eldstöðin er að komast á tíma ef miðað er við forsöguna,“ segir í pistli á vefsetrinu eldgos.is.

Brú yfir Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði. Hugsanlegt flóð gæti …
Brú yfir Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði. Hugsanlegt flóð gæti orðið um 7 klukkustundir að ná þangað frá því gos hæfist. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert