Útvarpsstjóri hefur ákveðið að halda áfram að útvarpa Morgunbæn og í stað Orða kvöldsins kemur nýr dagskrárliður Orð dagsins. Mun hann verða samtengdur morgunbæninni klukkan 6.25 á morgnana á Rás 1.
Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV. Þar sagði að útvarpsstjóri væri að bregðast við þeirri gagnrýni sem hefði komið fram í kjölfar ákvörðunar um að leggja dagskrárliðina af. Stofnaður var hópur á samfélagsvefnum Facebook þar sem kallað er eftir því að dagskrárliðirnir yrðu áfram á Rás 1. Samtals höfðu rúmlega 6.000 manns skráð sig í hópinn.
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu nú á öðrum tímanum.
„Nýverið kynnti dagskrárstjóri Rásar 1 hluta af þeim breytingum sem gerðar verða á dagskrá rásarinnar og miða að því að efla hana og þjónustuna við hlustendur. Meðal annars verður lögð áhersla á meiri samfellu í dagskránni með það að markmiði að gera hana markvissari og betri. Þetta leiðir til þess að nokkrir stuttir liðir sem nú brjóta upp dagskrána falla inn í lengri þætti og/eða færast á annan tíma. Með þessum breytingum er leitast við að dagskráin verði aðgengilegri og skýrari jafnt fyrir nýja sem eldri kynslóð útvarpshlustenda um leið og staðinn er vörður um sérstöðu Rásar 1 og menningarhlutverk hennar.
Meðal þeirra liða sem fyrirhugað er að gera breytingar á eru Morgunbæn, Morgunandakt og Orð kvöldsins. Hafa þær fregnir kallað fram töluverð viðbrögð, bæði frá ýmsum þjónum kirkjunnar og mörgum dyggum hlustendum Rásar 1 sem mega ekki til þess hugsa að þessir liðir hverfi úr dagskránni. Starfsfólk Ríkisútvarpsins hefur lagt við hlustir og tekur mark á þessum ábendingum enda er það sameiginlegt verkefni okkar að þjóna hlustendum eins vel og kostur er. Starfsfólkið hefur því skoðað með hvaða hætti megi bregðast við þeim röddum sem vilja halda í þessa liði með einhverjum hætti um leið og haldið er áfram að gera dagskrá rásarinnar markvissari eins og áður kom fram.
Ætlunin er að Rás 1 verði áfram vettvangur fyrir umræðu um trúarleg málefni og stendur vilji til að sinna því hlutverki betur en áður. Til marks um það verður í haust settur nýr þáttur á dagskrá þar sem prestar þjóðkirkjunnar, guðfræðingar og aðrir flytja hugleiðingar um trú, menningu og samfélag. Þátturinn verður á besta útsendingartíma strax eftir kvöldfréttir á sunnudögum.
Að höfðu samráði við Biskup Íslands hefur þó verið ákveðið að hafa áfram á dagskrá að morgni morgunbæn og orð dagsins. Í þættinum verður flutt stutt hugvekja og bæn. Sameinaðir falla dagskrárliðirnir betur að nýju dagskrárskipulagi rásarinnar, en þeir verða á dagskrá kl. 6.25 rétt á undan nýjum öflugum morgunþætti, Morgunvaktinni sem hefst kl. 6.30.
Því er við að bæta að áfram verður boðið upp á útsendingar frá messum í kirkjum landsins og sem fyrr býður RÚV upp á veglega dagskrá um hátíðir er tengist trúariðkun og bænahaldi landsmanna.
Vonir okkar standa til þess að með því að fastar hugvekjur og bænir verði áfram á dagskrá Rásar 1 megi skapa sátt um þær aðgerðir sem framundan eru til að efla rásina, um leið og haldið er fast í þær ríku hefðir sem gilda um hlutverk Ríkisútvarpsins við að miðla verðmæti trúarlífs í menningu okkar og samfélagi.“