Rýma hálendið norðan Dyngjujökuls

Lögreglustjórarnir á Húsavík og Seyðisfirði hafa ákveðið að loka og rýma hálendið norðan Dyngjujökuls vegna jarðhræringanna á svæðinu undanfarna daga. 

Í frétt frá Almannavörnum kemur fram að um öryggisráðstöfun sé að ræða þar sem ekki sé hægt að útiloka að jarðskjálftavirknin í kringum Bárðarbungu leiði til eldgoss með stuttum fyrirvara. Telur lögreglan að öruggast sé að rýma svæðið núma, því óframkvæmanlegt sé að rýma svæðið með stuttum fyrirvara, gerist það þörf. 

Lögreglan á Húsavík og Seyðisfirði hefur nú þegar lokað leiðum inn á svæðið og vinnur að því að ná til þeirra ferðamanna sem eru á hálendinu norðan Dyngjujökuls í því skyni að þeir yfirgefi svæðið.

Hættustigi lýst yfir

Þá hafa Almannavarnir í samráði við lögreglustjórana tvo ákveðið að lýsa yfir hættustigi á svæðinu norðan Dyngjujökuls, í samræmi við mat vísindamanna. 

Hættustig er annað stig almannavarna, á eftir óvissustigi en á undan neyðarstigi. Í hættustigi felst að ef hættumat leiðir í ljós að hætta fari vaxandi verður að grípa til tafarlausra ráðstafana til að tryggja sem best öryggi þeirra sem á svæðinu búa/dvelja. Slíkt er gert með því að efla viðbúnað neyðar- og öryggisþjónustunnar á viðkomandi svæði, ásamt því að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða s.s. rýmingar, brottflutnings eða lokunar svæða. Einnig eru leiðbeiningar og viðvaranir einkennandi fyrir þetta stig

Bárðarbunga og hálendið norðan Vatnajökuls.
Bárðarbunga og hálendið norðan Vatnajökuls. Kort/Landmælingar Íslands
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert