Tónlistarmaðurinn Halldór Eldjárn hefur opnað heimasíðu þar sem hægt er að hlusta á ljúfa jazztóna út frá skjálftavirkni Bárðarbungu. Síðuna opnaði hann í tilefni Jazzhátíðar Reykjavíkur sem staðið hefur yfir frá 14. ágúst og lýkur í dag, og nýtti hann til þess gögn um skjálftavirkni í Bárðarbungu síðustu tvo daga.
„Ég varð bara að gera þetta,“ segir Halldór, en hann hófst handa við gerð síðunnar í gærkvöldi og setti hana í loftið í nótt. „Það voru einhverjir búnir að nýta sér gögnin til að búa til þrívíddarmyndir og fleira sniðugt, en þar sem ég er mjög mikið inni í því að skapa tónlist með forritun eða tölvum á einn eða annan hátt þá taldi ég kjörið að nýta gögnin í það,“ segir hann. Í göngunum kemur fram tími, dýpt og stærð skjálfta og ákvað Halldór að þýða það yfir á einfalt hljóðfæri. „Þetta er í raun mjög einföld sínusbylgja sem spilar þessa tóna og svo valdi ég ákveðinn tónstiga svo þetta hljómaði ekki eins og algjört bull,“ segir hann.
Halldór segir síðuna hlaupa ansi hratt yfir skjálftavirkni síðustu tvo daga, en hann segir það vera vegna þess að skjálftarnir séu ekki nógu tíðir til að það sé eðlilegt að hlusta á þá í rauntíma. „Ég var mjög hissa á því hvað hægt var að ná skemmtilegum áhrifum útúr þessu,“ segir hann, og bætir við að tónlistin ráðist alfarið af virkni skjálftanna. „Dýpt skjálftans ræður til dæmis dýpt tónsins svo ef maður heyrir djúpa nótu þá er það eitthvað sem er í gangi mjög djúpt ofan í jörðinni,“ segir hann.
Aðspurður segist Halldór ekki hafa hugsað síðuna út frá því að til eldgoss kæmi. „Ég skipaði vefsíðunni að sækja þessi gögn og byrja að spila þau. Ef nýjustu gögnin benda til þess að það sé eldgos eða miklu meiri skjálftavirkni þá eiga miklu fleiri nótur eftir að spilast og ef þetta verður allt lengst ofan í jörðinni þá verður þetta allt mjög drungalegt,“ segir hann. „Ef það kemur eldgos ætli þetta breytist þá ekki í þungarokk,“ bætir hann við og hlær.
Halldór hefur þó ekki stórar áhyggjur af gosi, en vonar að ef til þess komi þá bíði það í nokkra daga í viðbót svo kærastan komist heim með flugi frá Englandi. „Það má bíða aðeins svo fólk geti að minnsta kosti afbókað flugin sín og þess háttar. Annars verður það bara heima að hlusta á skjálftana,“ segir hann að lokum.
Hægt er að hlusta á skjálftavirknina á heimasíðunni The sounds of the earhquakes in Bárðarbunga.