Skjálftar nánast á hverri mínútu

Ekkert lát virðist vera á skjálftahrinunni sem hófst í Bárðarbungu 16. ágúst. Stærsti skjálftinn í nótt reið yfir um fjögurleytið, 13,6 km suðaustur af Kistufelli. Reyndist hann vera 3 stig. Engir skjálftar hafa verið staðsettir við Kistufell það sem af er þessum degi. Engin merki eru um gosóróa.

Sigþrúður Ármannsdóttir, sérfræðingur á sviði jarðvár hjá Veðurstofu Íslands, segir að á milli 230 og 240 jarðskjálftar hafi mælst frá miðnætti og virknin sé í austurþyrpingunni líkt og í gær. Jarðskjálftarnir eru áfram á miklu dýpi, um 10 km. 

Klukkan 00:58 kom jarðskjálfti inni í Bárðarbunguöskjunni og hann var 2,7 að stærð. „Það er mikil virkni og skjálftar á hverri mínútu,“ segir Sigþrúður.

GPS-staðsetningamælingar gefa sterkar vísbendingar um kvikuhreyfingu. Um er að ræða jarðskjálftahreyfingar tengdar kvikuhreyfingu austur af Bárðarbunguöskjunni og við brún Dyngjujökuls skammt austur af Kistufelli. Ekki sjást merki um að kvika sé á leið til yfirborðs.

Lögreglustjórarnir á Húsavík og Seyðisfirði ákváðu í gær að loka og rýma hálendið norðan Dyngjujökuls vegna jarðhræringanna í kring um Bárðarbungu undanfarna daga.

„Um er að ræða öryggisráðstöfun þar sem ekki er hægt að útiloka að jarðskjálftavirknin undir Bárðarbungu geti leitt til eldgoss með stuttum fyrirvara. Rétt er þó að taka fram að enn eru engin merki um gos – reynslan úr fyrri jarðhræringum sýnir að þær geta staðið lengi yfir áður en og ef til goss kemur. Viðbúnaðurinn nú er fyrst og fremst til að vera við slíku gosi búinn þar sem lögreglan á Húsavík og Seyðisfirði telur að óframkvæmanlegt sé að rýma svæðið með stuttum fyrirvara, gerist þess þörf.

Hefur lögreglan á Húsavík og Seyðisfirði nú þegar lokað leiðum inn á svæðið og vinnur að því að ná til þeirra ferðamanna sem eru á hálendinu norðan Dyngjujökuls í því skyni að þeir yfirgefi svæðið, að því er segir á vef Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórana á Húsavík og Seyðisfirði og í samræmi við mat vísindamanna ákveðið að lýsa yfir hættustigi almannavarna á svæðinu norðan Dyngjujökuls.

Jarðskjálftar úr sjálfvirka kerfinu síðustu tvo sólarhringa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert