Vilja auknar álögur á óhollustu

Embætti landlæknis leggst gegn því að lækka álögur á óhollustu eins og gosdrykki og sælgæti því það geti haft í för með sér aukna neyslu á þessum vörum. Embættið myndi frekar vilja sjá beina hækkun á gjöldum á þessum vörutegundum.

„Vegna umræðu í fjölmiðlum að undanförnu um afnám sykurskatts vill embætti landlæknis koma því á framfæri að það telur ekki farsælt út frá sjónarmiðum heilsueflingar að lækka álögur á óhollustu eins og gosdrykki og sælgæti því það geti haft í för með sér aukna neyslu á þessum vörum.

Embættið myndi frekar vilja sjá beina hækkun á gjöldum á þessum vörutegundum og lækkun á gjöldum á hollustu á borð við ávexti, grænmeti og fisk. Vinnuhópur sem velferðarráðuneytið skipaði til að koma með tillögur að aðgerðaáætlun til að draga úr tíðni offitu setti það í fyrsta sæti að hækka skatta og/eða vörugjöld á óhollustu (t.d. sykruðum gos- og svaladrykkjum, drykkjum með sætuefnum og sælgæti) og lækka skatta á hollustu (t.d. grænmeti, ávöxtum og fiski). Þannig væri útgangspunkturinn sá að hækkun skatta á óhollustu nýtist almenningi, a.m.k. að hluta til, í formi skattalækkunar á hollari vöru. Þar kom einnig fram að tekjur af álagningu á óhollustu ætti að nýta að hluta til að standa straum af kostnaði við aðgerðir sem leiða til heilbrigðari lifnaðarhátta,“ segir á vef landlæknis.

Niðurstöður rannsókna hafa sýnt fram á að verðstýring með sköttum eða vörugjöldum á sykraða gosdrykki geti verið áhrifarík leið til að minnka neyslu á þeirri vöru en mikil neysla á sykruðum gos- og svaladrykkjum hefur verið tengd við aukna tíðni á offitu. Slík verðhækkun getur haft áhrif þar sem þörfin er brýnust, þ.e. hjá börnum og ungmennum og öðrum þeim sem drekka mest af gosdrykkjum.

„Í grein sem birtist árið 2011 í Lancet, einu þekktasta tímiriti heims um heilbrigðismál og lýðheilsu, var lagt mat á hvaða aðgerðir stjórnavalda í Ástralíu skiluðu mestum ávinningi og árangri í því að sporna gegn offitu þar í landi. Niðurstaða greiningarinnar var sú að skattar á óholla mat- og drykkjarvöru væri áhrifaríkasta leiðin til að bæta heilsu og að draga úr útgjöldum vegna hennar.

Þegar til stóð að leggja á núgildandi sykurskatt lagði Embætti landlæknis til meiri beina hækkun á sykraða gos- og svaladrykki og sælgæti, í stað þess að hækka gjald á sykri og sykruðum vörum í samræmi við sykurinnihald. Sú leið sem var farin leiddi til þess að gosdrykkir hækkuðu einungis um 5 krónur á hvern lítra og hvert kíló af súkkulaði lækkaði um 16 krónur. Þetta eru þær vörutegundir sem leggja hvað mest til sykurneyslunnar (eða rúman helming meðal fullorðinna og meira hjá unglingum). Embætti landlæknis benti á að þessar breytingar myndu því ekki hafa mikil áhrif til að draga úr neyslu á gosdrykkjum en gætu aukið neyslu á sælgæti. Sykurskatturinn myndi því ekki taka nægjanlegt mið af manneldissjónarmiðum og myndi því ekki hafa mikil áhrif til bættrar lýðheilsu. Koma má í veg fyrir að skattahækkunin vegna sykurs skili sér út í almennt verðlag með því að lækka álögur á hollum matvælum eins og t.d. ávöxtum, grænmeti og fiski. 

Embætti landlæknis tekur undir niðurstöður vinnuhóps velferðarráðuneytisins og hvetur eindregið til að álögur á óhollustu verði hækkaðar, t.d. á gosi-, svaladrykkjum og sælgæti, og lækkaðar álögur á hollustu á borð við ávexti, grænmeti og fisk. Slíkt myndi skapa aðstæður til heilbrigðari lifnaðarhátta, með auðveldara aðgengi að hollum matvælum,“ segir ennfremur á vef landlæknis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka