Skjálfti af stærðinni 4 í Bárðarbungu

Bárðarbunga og Jökulsá á Fjöllum.
Bárðarbunga og Jökulsá á Fjöllum. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Fjórir skjálftar sem mælast yfir 3 hafa orðið í Bárðarbungu í dag og var sá stærsti 4,0 stig, sem yrði þá næststærsti skjálftinn til þessa í hrinunni. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands á þó eftir að staðfesta stærðina endanlega.

Aðfaranótt 19. ágúst varð skjálfti sem mældist 4,0 stig og er hann sá stærsti fram til þessa.

Samkvæmt jarðskjálftatöflu Veðurstofu Íslands mælast a.m.k. tveir skjálftanna í dag á talsvert grynnra dýpi en verið hefur, þar á meðal stóri skjálftinn sem er skráður á 3,1 km dýpi. Það hefur þó ekki verið staðfest ennþá og eins og Kristín Jónsdóttir fagstjóri jarðvár Veðurstofunnar sagði í samtali við mbl.is í gær þá er mjög erfitt að reikna út nákvæma staðsetningu skjálftanna og sérstaklega dýpið.

Skjálftinn sem mælist 4 stig varð rétt fyrir kl. 11 en áður var skjálfti upp á 3,7 kl. 10:29 á 2,7 km dýpi, annar upp á 3,0 um tvöleytið í nótt og loks skjálfti af stærðinni 3,4 kl. 13 eftir hádegi í dag. Þess utan hafa tugir smærri skjálfta verið á svæðinu í dag, líkt og undanfarna sólarhringa.

Í nótt voru flestir skjálftarnir á 8–11 km dýpi en undir morgun voru nokkrir á 5–6 km dýpi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert