Allir starfsmenn Evrópustofu hættir

AFP

Ekki náðust samningar í sumar um áframhaldandi aðkomu almannatengslafyrirtækisins Athygli að rekstri Evrópustofu hér á landi og lauk henni því 28. júlí síðastliðinn. Þetta staðfestir Sigurður Sverrisson, framkvæmdastjóri Athygli, í samtali við mbl.is. Ráðningarsamningar starfsmanna Evrópustofu runnu út á sama tíma.

Rekstur Evrópustofu var boðinn út af Evrópusambandinu á sínum tíma í kjölfar umsóknar Íslands um inngöngu í sambandið en stofan er upplýsingamiðstöð þess hér á landi. Verkefnið féll í skaut Athygli og þýska almannatengslafyrirtækisins Media Consulta árið 2011 og var Evrópustofa opnuð formlega í upphafi næsta árs. Verktakasamningurinn var upphaflega til tveggja ára en var framlengdur á síðasta ári. Til stóð að framlengja hann aftur í ár með sama hætti en ekki varð af því.

Media Consulta mun reka Evrópustofu alfarið á eigin vegum næsta árið samkvæmt upplýsingum frá Sendiráði Evrópusambandsins á Íslandi. Sigurður segir að samtals hafi fimm starfað hjá Evrópustofu í rúmlega fjórum stöðugildum. Einn hafi verið starfsmaður Athygli en aðrir hafi verið ráðnir sérstaklega til starfa á Evrópustofu. Fjórir hafi því misst vinnuna sem ýmist voru í fulli starfi eða hlutastarfi. Hugsanlegt sé að einhverjum þeirra verði boðið starf áfram af þýska fyrirtækinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert