Taktu strætó - það er þægilegra

Skjáskot úr myndbandinu

Skilaboð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru einföld, eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi, sem birtist á facebooksíðu lögreglunnar.

Hér eru svo Menningarnæturboðorð Bigga löggu:

Menningarnæturboðorð Bigga löggu

1. Brosum eins mikið og við getum.
2. Tökum strætó. Það kostar ekkert og er miklu þægilegra. Án gríns.
3. Ef við komum á bíl skulum við leggja í bílastæði. Sá fyrsti sem ákveður að leggja upp á einhverjum grasbala er ekki gæddur neinum töfrum sem munu breyta grasbalanum í bílastæði fyrir alla hina. Leyfum honum bara að fá sína sekt í friði og finnum alvöru-bílastæði.
4. Ekki pirrast út af lokununum. Þær eru fyrir okkur. Ef þær væru ekki, þá fyrst færi allt í rugl. Lokanirnar eru líka risastórt öryggisatriði. Það er frábært. Húrra fyrir lokunum!
5. Syngjum við hvert tækifæri.
6. Menningarnótt er fjölskylduskemmtun af dýrari gerðinni. Notum tækifærið og komum saman í miðbæinn, verum saman allan tímann og förum saman. Syngjandi í strætó.
7. Ekki vera þessi fulli sem fjölskyldurnar taka stóran sveig framhjá. Það er ekki töff.
8. Ekki pirrast út í þá sem eru að vinna við lokanirnar. Þeir eru bara að vinna vinnuna sína. Heilsum þeim frekar og gefum þeim „high five“. Þeir væru pottþétt alveg til í að vera á röltinu með sinni fjölskyldu.
9. Búum til góðar minningar fyrir okkur sjálf og jákvæðar fréttir af menningarnóttinni.
10. Skemmtum okkur ótrúlega vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert