Um 15.000 undirskriftir afhentar

Fyrr í dag afhentu sjálfboðaliðar IFAW (International fund for animal welfare) samtakanna og Hvalskoðunarsamtaka Íslands fulltrúum Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Umhverfis- og auðlindarráðuneytisins 15.000 póstkort sem sjálfboðaliðar hafa safnað í sumar. Um það bil 60 sjálfboðaliðar frá Ítalíu, Svíþjóð, Þýskalandi, Frakklandi, Rússlandi og Spáni ræddu við erlenda ferðamenn og Íslendinga á götum Reykjavíkur og söfnuðu undirskriftum.

Þetta er þriðja sumarið sem sjálfboðaliðar safna póstkortum og undirskriftum ferðamanna sem heita því að bragða ekki á hvalkjöti og vilja að hvalveiðum verði hætt. Ef taldar eru undirskriftir ferðamanna síðastliðin sumur þá eru undirskriftirnar nú orðnar 50.000 talsins.

Viðtökur ferðamanna hafa verið einstaklega góðar, að sögn sjálfboðaliðanna, og eru þeir áhugasamir um hvalveiðar hér á landi enda sækist mikill fjöldi ferðamanna eftir því að komast í návígi við þá í hvalaskoðun. Þá sækjast sjálfboðaliðarnir eftir því að vekja erlenda ferðamenn til umhugsunar um hvalveiðar, auk þess eru ferðamenn hvattir til þess að borða á veitingastöðum sem styrkja málstað samtakanna, eru á móti hvalveiðum og selja ekki hvalkjöt. Lista um þá staði má finna á heimasíðu Hvalaskoðunarsamtaka Íslands www.icewhale.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert