25 km berggangur undir Dyngjujökli

Bárðarbunga er í norðanverðum Vatnajökli.
Bárðarbunga er í norðanverðum Vatnajökli. mbl.is/Árni Sæberg

Um 25 km langur berggangur hefur myndast undir Dyngjujökli. Gangurinn hefur lítið lengst en kvikuflæði er eftir ganginum og merki eru um að hann sé að greinast í norð-austur endanum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá embætti ríkislögreglustjóra. Virkni sem hófst aðfararnótt laugardags 16. ágúst hefur haldið áfram óslitið og ekki eru merki um að henni sé að ljúka.

Skjálftavirknin við Bárðarbungu og undir Dyngjujökli er ennþá mikil en þó nokkuð minni en síðustu nótt. Um kl. 06:30 í morgun höfðu mælst um 250 jarðskjálftar frá miðnætti en á svipuðum tíma í gærmorgun voru þeir tæplega 400.

Flestir skjálftanna eiga upptök við kvikuinnskotið undir Dyngjujökli á um 10 km kafla. Þeir eru flestir á um 8-12 km dýpi. Skjálftavirknin þar hefur ekki færst lengra til norðurs eða norðausturs.

Nokkur skjálftavirkni er einnig við Bárðarbunguöskjuna og þar mældust 2 lágtíðniskjálftar yfir 3 að stærð.

14 cm færsla á skömmum tíma

Báðir skjálftarnir áttu upptök við norðurbrún Bárðarbunguöskjunnar og var sá fyrri kl. 03:22 og var 3,3 að stærð og sá seinni kl. 05:33, 3,6 að stærð. Sá fyrri var sniðgengisskjálfti en sá seinni samgengisskjálfti . Þeir voru á um 4-8 km dýpi og orsakast líklega af aðlögun öskjunnar vegna þrýstingsbreytinga undir henni þegar kvika streymir frá henni inn í innskotið.

Frá upphafi virkninnar hafa mælst færslur á yfirborði sem eru yfir 14 cm á Dyngjuhálsi, um 15-20 km frá bergganginum. Færslurnar eru mældar með GPS mælum (aflögunarmælingar). Til samanburðar má benda á að Ísland gliðnar að meðaltali um tæpa 2 cm árlega.

Ný GPS stöð í Kverkfjöllum og skjálftamælir senda upplýsingar í rauntíma á vefinn. Færanlegar ratsjár eru staðsettar við Syðri Hágöngu og Hótel Laka, sem eru á styttri bylgjulengd en fastar ratsjár og nema ösku og annað í andrúmsloftinu betur en á minna svæði. Föstu ratsjárnar eru á Egilsstöðum og við Keflavíkurflugvöll.

Samtúlkun GPS og jarðskjálftamælinga er lykilþáttur á greiningu á virkninni og samvinna vísindamanna Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og samstarfaðila í FutureVolc rannsóknarverkefninu.

Brennisteinslykt af Sveðju

Vatnamælingamenn hafa komið fyrir þremur nýjum leiðnimælum í ám í kringum Bárðarbungu, í Skjálfandafljóti, Köldukvísl og Jökulsá á fjöllum. Einnig var mælt í Sveðju með handmæli, en sterk brennisteinslykt var af ánni.

Samhæfing aðgerða heldur áfram í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð. Í gær var haldinn fundur með vísindamönnum þar sem farið var yfir nýjustu upplýsingar sem vísindamenn hafa safnað úr tækjum og ástandið metið. Einnig var fundur um flóðamál þar sem farið var yfir landupplýsingagögn og drög lögð að korti yfir áhrifasvæði hugsanlegs flóðs. Þá var fundað með fulltrúum fjarskiptafyrirtækja og rætt um varaafl og áhrif á ljósleiðaratengingar og önnur fjarskiptamannvirki. Annar fundur var haldinn um áhrif flóða á vegakerfi og orkumannvirki og farið yfir viðbrögð viðkomandi aðila.

Fundað var með viðbragðs- og hagsmunaaðilum á Egilsstöðum í gær. Fulltrúar almannavarna, lögreglu og vísindamanna voru á fundinum og ræddu stöðuna á áhrifasvæði hugsanlegs flóðs og aðgerðir síðustu daga. Þar voru einnig fulltrúar frá sveitarfélögum, bændum, heilbrigðiskerfinu og fleirum.

Björgunarsveitir og lögregla vakta lokaða svæðið. Eftirfarandi hálendisvegir eru lokaðir í samráði við Almannavarnir: F- 910 Austurleið (Dyngjufjallaleið), F903 Hvannalindavegur, F902 Kverkfjallaleið, F905 Arnardalsleið og F88 Öskjuleið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert