Almannavarnir ganga of langt

Bærinn Sandfell í Öxarfirði.
Bærinn Sandfell í Öxarfirði. mbl.is/Baldur

Gunnar Björnsson, bóndi á Sandfelli, gagnrýnir yfirvöld almannavarna fyrir að fyrirskipa að rýma beri alla bæi í sveitinni ofan og neðan Sandár, austustu kvíslinni í Jökulsá á Fjöllum, ef til flóðs kemur. Slík rýming sé óþarfi, enda muni áin aldrei ná yfir þjóðveg 85 austan Jökulsárbrúar sem liggur til Kópaskers.

Almannavarnir efndu til fundar með heimamönnum síðastliðinn fimmtudag og var þar farið yfir viðbragðsáætlanir ef til meiriháttar náttúruhamfara kemur. Svæðið verður rýmt ef hamfarir verða og verður fólki safnað saman í hjálparmiðstöð á Kópaskeri.

Sandfell er í um 10 mínútna akstursfjarlægð frá Ásbyrgi, þar sem brúin liggur yfir Jökulsá á Fjöllum. Eins og mbl.is hefur sagt frá hafa starfsmenn Vegagerðarinnar unnið að því að vernda brúna, ef flóð verður.

Fluttu búfénað í burtu

Heimamenn, að Gunnari meðtöldum, tóku ákvörðun um að taka allan búfénað upp fyrir þjóðveginn, þannig að skepnur yrðu ekki í hættu neðan þjóðvegar ef stórflóð yrði.

„Það má segja að allir bæir ofan þjóðvegar 85 séu ekki í hættu. Á millri allra bæja ofan þjóðvegarins er vegatenging sem má nota til að fara yfir Öxafjarðarheiði. Nú er sumar og allir vegir eru færir. Í gegnum árin hefur okkar rýmingaráætlun, þegar hlaup verður í Jökulsá á Fjöllum, verið sú að fólk sem er neðan þjóðvegar kemur sér fyrir á bæjum ofan við þjóðveginn. Það er áætlun sem hefur virkað.

Mér finnst því ástæðulaust að valda auknum áhyggjum hjá heimafólki með því að skikka það til að yfirgefa örugg heimili sín til þess að fara í fjöldahjálparstöð á Kópaskeri. Það má ekki snúa aftur í sitt örugga umhverfi fyrr en búið er að lýsa því yfir að hættuástand sé liðið hjá.

Ég tel eðlilegt að gerð sé rýmingaráætlun. Hún þarf hins vegar að vera gerð af heilbrigðri skynsemi. Þetta er mitt mat, ekki almannavarna,“ segir Gunnar.

Eru með rafstöðvar

„Við eigum að fara á Kópasker í fjöldahjálparstöð. Á þessum bæjum í Öxarfirði eru samtals fimm rafstöðar. Við getum safnast á þeim bæjum ef til rafmangsleysis í lengri tíma kemur. Við getum þess vegna verið hér mánuðum saman án rafmagns, ef rafmagn fer af Kópaskeri. Laxárlínan til Kópaskers getur farið í sundur, eins og Landsnet hefur bent á. 

Mitt mat er að almannavarnir séu að taka rangar ákvarðanir,“ segir Gunnar.

Gunnar ásamt eiginkonu sinni, Önnu Englund.
Gunnar ásamt eiginkonu sinni, Önnu Englund. Ljósmynd/Elvar Þór
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert