„Þetta gæti verið sólbráð, það er voða lítið hægt að segja að svo stöddu. Mér finnst flæðið þó vera að aukast vestast undir jöklinum,“ segir Ómar Ragnarsson í samtali við mbl.is aðspurður um aðstæður á jöklinum. Hann er nú á flugi yfir Dyngjujökli en talið er að lítið gos sé hafið undir sporði jökulsins.
Ómar segist kanna svæðið úr hæfilegri fjarlægð. Hann telur að ekki sé um stórt hlaup að ræða sem gangi niður úr jöklinum, að minnsta kosti ekki að svo stöddu. Hugsanlegt er að vatnið sé aðeins leysingavatn en Ómar heldur áfram að fljúga yfir svæðinu og fylgjast með stöðu mála.
Vísindamenn Veðurstofu Íslands telja að lítið eldgos sé hafið undir sporði Dyngjujökuls. Þar sem atburður er hafinn hefur Ríkislögreglustjóri ákveðið að færa hættustig upp á neyðarstig og Veðurstofa Íslands hefur fært litakóða vegna flugs upp á rautt, sem þýðir að flug er nú bannað yfir svæðinu.
Talið er að um lítinn atburð sé að ræða enn sem komið er og vegna þrýstings frá jöklinum er óljóst hvort gosið muni eingöngu verða undir jökli eða koma upp úr honum.
Á þessu stigi miðast viðbúnaður við lítinn atburð. Búið er að loka Jökulsárgljúfrum og hafin rýming ferðamanna þaðan sem og af Dettifosssvæðinu. Að svo stöddu er ekki talin ástæða til að rýma íbúa- og frístundabyggð í Kelduhverfi, Öxarfirði og Núpasveit. Fólk á þessu svæði er hvatt til að fylgjast grannt með fréttum og vera í stöðugu farsímasambandi.