Skyndileg aukning á skjálftavirkni

Bárðarbunga
Bárðarbunga mbl.is/Árni Sæberg

Skjálftavirkni í kringum Bárðarbungu hefur aukist töluvert nú rétt fyrir hádegi. TF-SIF hefur verið sett í viðbragðsstöðu sem er hluti af eðlilegu ferli við þessar aðstæður.

25 km gangur undir Dyngjujökli hefur lengst hratt til norðurs á síðustu klukkustundum. GPS landmælingar sýna heildargliðnun um rúmlega 20 cm frá því atburðir hófust. Engar marktækar breytingar mælast í vatnsföllum í nágrenninu.

Litakóði fyrir flug er áfram appelsínugulur en verið er að meta hvort ástæða sé að breyta honum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofunni.

„Stórir skjálftar í Bárðarbungu eru svörun við því sigi sem hefur orðið í öskju Bárðarbungu frá upphafi brota ásamt spennubreytingum umhverfis bergganginn.
Síðustu klukkustundir hefur berggangurinn lengst til norðurs um fáeina km. Engar breytingar sjást dýpt umbrotanna. Skjálftavirkni bendir til að gangurinn hafi víkkað í norðausturendanum síðustu sólarhringa og samtúlkun mælinga bendir til þess að kvikuflæði sé enn eftir ganginum,“ segir í fréttatilkynningu.

Þrír nýjir leiðnimælar hafa verið settir upp ám í kring um Bárðarbungu, í Skjálfandafljóti (Rjúpnabrekkukvísl), Köldukvísl og Jökulsá á Fjöllum á brúnni við Upptyppinga. Ekki er hægt að draga neinar ályktanir um breytingar í áhrifum jarðhita eða eldvirkni á leiðni í ánum að svo stöddu.

Enn er mikil virkni og því er ekki hægt að útiloka að atburðarrásin leiði til eldgoss.
Litakóði fyrir flug er áfram appelsínugulur en verið er að meta hvort ástæða sé að breyta honum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert