Sterkar vísbendingar um gos

Sérfræðingar Veðurstofunnar segja sterkar vísbendingar um að gos sé hafið undir Dyngjujökli. Enginn gosmökkur er sjáanlegur.

Vatnshæðar- og leiðnimælingar við Upptyppinga sýna ekki gildi utan þess sem við er að búast, miðað við mælingar síðastliðinn áratug. Það myndi taka 0-20 klst fyrir mögulegt bræðsluvatn frá Dyngjujökli að berast að mælistöð við Upptyppinga, segir í stöðuskýrslu Veðurstofunnar sem gerð var kl. 16.07 og send út nú síðdegis.

Kl 11:18 fór að bera á skjálftaóróa á bilinu 1-1,5 Hz. Þetta bendir til mögulegs samspils á milli íss og kviku. Óróanum svipar til þess sem mældist á meðan gos var í Fimmvörðuhálsi þar sem
flæðandi hraun komst í snertingu við ís. Engin merki um sprengingar sjást í óróagögnum sem
benda til þess að mjög lítið kvikumagn sé að koma upp á yfirborð.

Jarðskjálftatíðni er það há að atburðir skarast á og erfitt er að greina þá í sundur. Talið er að flestir jarðskjálftarnir séu á 5-10 km dýpi sem er talið vera botn berggangsins. Gangurinn hefur lengst um 5 km til norðurs síðastliðinn sólarhring.

Nýjustu gögn frá GPS landmælum benda til þess að kvika sé enn að flæða inn í bergganginn. Frá
því skjálftavirknin byrjaði þann 16. ágúst hefur 20 cm heildarfærsla mælst yfir bergganginn.
Samkvæmt módelreikningum er heildarrúmmál kviku í bergganginum u.þ.b. 250 milljón rúmmetrar. GPS stöðvarnar á Dyngjuhálsi og Kverkfjöllum sýna áframhaldandi aflögun.

Úr appelsínugulu í rautt

Litakóði fyrir flug hefur verið færður úr appelsínugulu yfir í rautt þar sem gos undir jökli er talið vera hafið. Ísþykkt þar sem kvikan gæti verið í snertingu við ís er mjög óviss og gæti verið á bilinu 100-400 m. Það myndi taka kviku um 0-20 klst að brjótast í gegnum ísinn. Það er einnig mögulegt að kvika nái ekki að bræða sig upp úr jöklinum, segir í stöðuskýrslu Veðurstofunnar um jarðhræringar norðan Vatnajökuls.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert