„Það mætti eiginlega segja að þetta sé óhagstæðasta vindáttin þar sem mikið af umferðinni til og frá Evrópu og Norður-Ameríku fer hér rétt sunnan við landið,“ segir Kristján Torfason hjá Isavia. Hann situr nú í samhæfingarmiðstöð Almannavarna og fylgist með flugumferð yfir landinu.
Veðurstofan sendi í dag út tilkynningu um afmarkað hættusvæði í kringum gosið. Ef til goss kemur verður askan fljót að dreifa sér um svæðið ef vindáttin helst óbreytt. „Það er búið að afmarka hættusvæði þar sem vélar mega ekki fljúga inn í. Vélarnar frá Keflavík sem fljúga til Evrópu krækja flestar suðurfyrir. Einu vélarnar sem mega fljúga á svæðinu eru þær vélar sem fljúga sjónflug. Vél Landhelgisgæslunnar er á svæðinu núna auk vélar frá Mýflugi,“ segir Kristján.
Hann segir að svæðið muni örugglega breytast með vindáttinni. Það gerist þó oftast nokkuð hægt.
Ef ske kynni að stórt gos yrði þá verður afmarkaða hættusvæðið stækkað að sögn Kristjáns. „, Eins ef vindáttir fara að breytast, þá fer öskudreifingin að breytast eins og við þekkjum úr Eyjafjallajökulsgosinu þegar hálft Atlantshafið lokaðist.“
Kristján segir núverandi vindátt vera afar óhagstæða fyrir millilandaflug en annað gildir um innanlandsflugið. „Þetta er hagstætt fyrir innanlandsflug þar sem þetta lokar ekki stærstu flugvöllum landsins.“