Gos líklegast milli Dyngjujökuls og Öskju

Kvikugangurinn liggur frá Bárðarbungu til norðurs í átt að Öskju.
Kvikugangurinn liggur frá Bárðarbungu til norðurs í átt að Öskju. mbl.is/Árni Sæberg

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur telur líklegast að eldgos verði á milli Dyngjujökuls og Öskju. Hann segir að núna stefni kvikugangurinn beint að megineldstöðinni Öskju. Hann bendir líka á að kvikan sé ekki bara á leið til norðurs heldur einnig niður á við.

Haraldur segir á bloggsíðu sinni að mikil breyting hafi orðið á skjálftavirkni undir Vatnajökli hinn 23. ágúst. Þá hafi skjálftavirknin tekið mikið stökk til norðurs, en einnig niður á bóginn. „Undanfarna viku hefur þungamiðjan af skjálftum stærri en 2 verið á dýpi í kringum 7 til 12 km.  

En hinn 23. ágúst er virknin mun dýpra, með flesta skjálfta af þessari stærð á bilinu 12 til 15 km. Gangurinn virðist fara dýpra en áður. Þetta er ekki sú hegðun, sem maður býst við sem undanfara eldgoss. Það skal þó tekið fram að stærsti skjálftinn, 5,3, og mesta útlosun orku til þessa, var á 5,3 km dýpi og annar 5,1 á 6 km.  

Það vekur athygli manns að nær engir skjálftar eiga upptök dýpri en um 15 km. Hvað veldur því? Er það ef til vill vegna þess, að á meira dýpi er jarðskorpan orðin svo heit, að hún brotnar ekki? Sjálfsagt eru kvikuhreyfingar að gerast dýpra en 15 km en við höfum ekki tólin og tækin til að sjá þær.

Kvikugangurinn frá Bárðarbungu heldur áfram að vaxa, en hefur nú breytt stefnu frá norðaustri til norðurs. Hann stefnir því beint að megineldstöðinni Öskju. Getur hann náð alla leið til Öskju? Það er aðeins 25 km leið frá jökulsporðinum á Dyngjujökli og til Öskju.  

Gangar geta orðið mjög langir. Tökum nokkur dæmi frá Íslandi. Skaftáreldar eða Lakagosið árið 1783 var sprungugos, sem kom upp í gegnum jarðskorpuna úr kvikugangi. Gossprungan sjálf er um 25 km löng, en allt bendir til að hún nái inn undir Vatnajökul og alla leið til Grímsvatna.

Kvikan sem gýs í Grímsvötnum er sú sama og kemur upp í Lakagígum. Það bendir til að gangurinn nái frá kvikuþrónni undir Grímsvötnum og alla leið til Lakagíga, eða um 70 km veg. Svipaða sögu er að segja um Eldgjá og Kötlu. 

Sprungan sem myndar Eldgjá er vitneskja á yfirborði um gang, sem nær alla leið til Kötlu. Efnagreiningar sýna að kvikan úr Eldgjá samsvarar kvikunni í kvikuþrónni undir Kötlu. Hér mun vera gangur sem myndaðist  árið 934, sem er um 55 km langur. 

Þriðja dæmið er Askja sjálf. Árið 1875 gaus í Öskju, en undanfari þess goss var sprungugos  í Sveinagjá, um 70 km norður af Öskju. Aftur hjálpar efnafræðin okkur hér og sýnir að basaltkvikan sem kom upp í Sveinagjá er hin sama og gaus í Öskju. 

Það er því auðvelt að hugsa sér að nýi gangurinn frá Bárðarbungu gæti náð til Öskju. Ef það gerist, þá er atburðarásin háð því hvort gangurinn sker kvikuþró Öskju, eða sneiðir framhjá.  

Eitt er það sem við lærum af hegðun ganganna í Lakagígum 1783, Eldgjá 934 og Sveinagjá 1875, að kvikan kom alltaf upp á yfirborðið þar sem gangarnir brutust í gegnum jarðskorpuna á láglendi. Kvikan er þungur vökvi og það er eðli hennar að streyma til hliðar, frekar en upp, svo framarlega sem opin sprunga er fyrir hendi. 

Mestar líkur eru því á gosi nú, þegar gangurinn skríður í gegnum jarðskorpuna undir söndunum norðan Dyngjujökuls og sunnan Öskju. Ef hann gýs ekki þar, þá tekur við norðar mikið hálendi Dyngjufjalla, Kollóttudyngju og Ódáðahrauns og ólíklegt að hann komi upp á yfirborð þar,“ segir Haraldur.

Haraldur Sigurðsson
Haraldur Sigurðsson mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert