Verulega sér á birkiskógum á Almenningum við Þórsmörk eftir sauðfjárbeit í sumar. Sumstaðar eru tré uppnöguð og munu með áframhaldandi beit eyðast. Þetta kemur fram í frétt sem birt var í vikunni á vefsetri Skógræktar ríksins.
Haft er eftir Hreini Óskarssyni skógarverði á Suðurlandi að mest sé þetta áberandi þar sem tilbúinn áburður hafði verið borinn á land. Almennt sjái lítið á eldri skógi nema að neðstu greinar hafi verið nagaðar upp til agna.
Hreinn segir að fé hafi víða farið um Almenninga í sumar og eitthvað slæðst yfir á Þórsmörk. Féð haldi sig mest í uppgræðslusvæðum og landi sem er lítt gróið þar sem það étur nýgræðing.
Birki hafi á síðustu 20 árum breiðst út mjög víða um Almenninga. Áframhaldandi friðun myndi stuðla að mikilli útbreiðslu birkis á Almenningum. Með þessu gæti landið staðist betur áföll vegna ösku og annarra eyðandi afla.