Tveir skjálftar um og yfir 5 að stærð urðu við Bárðarbunguöskjuna í nótt. Sá fyrri var 5,3 að stærð og varð hann klukkan 00:09 í nótt. Átti hann upptök sín við norðurbrún Bárðarbunguöskjunnar. Sá seinni var um 5 að stærð og varð hann við suðurbrúnina.
Eru þessir tveir skjálftar þeir stærstu sem hafa komið á svæðinu frá árinu 1996. Talið er að skjálftarnir hafi orðið vegna aðlögunar öskjunnar að þrýstingsbreytingum vegna kvikuflæðis úr öskjunni inn í bergganginn sem hefur náð til Dyngjujökuls, eða um 25 km leið.
Að sögn Veðurstofu Íslands er mjög mikil skjálftavirkni við bergganginn við Dyngjujökul og hafa upptök skjálftanna færst örlítið til norðurs. Eru skjálftarnir flestir á 8-13 km dýpi.