Jarðskjálfti af stærðinni 5,1 varð suðaustur af Bárðarbungu klukkan 16:19 að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands. Skjálftavirkni er enn mjög mikil, rúmlega 700 skjálftar hafa mælst frá miðnætti.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir í stöðuskýrslu að virknin þokist áfram til norðurs og sé að mestu á 10 km löngu bili, með miðju undir jökuljaðrinum.
Klukkan 20:39 í gærkvöldi mældist skjálfti af stærðinni 5 í Bárðarbunguöskjunni, en síðan hafa ekki orðið stórir skjálftar þar. Berggangurinn undir Dyngjujökli er nú talinn vera um 35 km langur. Líkanreikningar byggðir á GPS-mælingum benda til að um 300 milljón rúmmetrar af kviku séu í ganginum. GPS-mælum verður bætt við norðan við Vonarskarð og á Urðarhálsi á næstu dögum.
Tekið er fram að engar vísbendingar séu um að dregið hafi úr ákafa atburðanna. Ekki sé hægt að segja til um það á þessari stundu hvert framhaldið verður. Þrír möguleikar eru taldir líklegastir:
Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir t.d. gos í Bárðarbunguöskjunni en líkur á því eru mun minni á þessari stundu.
Lokanir eru í gildi á hálendinu norðan Vatnajökuls. Búið er að opna Hólsfjallaveg (F864) austan Jökulsársgljúfurs frá þjóðvegi 1 að vegi 85. Einnig er búið að opna fyrir umferð inn í Ásbyrgi.