„Við vildum í fyrsta lagi efla fréttastofuna og sjálfstæði hennar og auka hlut kvenna í fréttaskrifum. Það mun gerast smátt og smátt á næstu vikum og mánuðum,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 miðla, í samtali við mbl.is, en eins og fram kemur í frétt mbl.is var Mikael Torfasyni sagt upp sem aðalritstjóra 365 í dag.
Hann segir markmiðið vera að einfalda skipulag fréttastofunnar og lækka kostnað við yfirbyggingu hennar. „Við viljum síðan vinna þetta með starfsmönnum og stjórnendum fréttastofunnar áfram,“ segir Sævar.
Hann segist eiga von á að skipulag fréttastofunnar verði einfaldað enn frekar á næstu vikum og mánuðum og útilokar því ekki frekari mannabreytingar. Aðspurður um stöðu Ólafs Þ. Stephensen, ritstjóra Fréttablaðsins, vill Sævar ekki tjá sig um mál einstakra starfsmanna.
„Við erum búin að skipta um yfirmann á fréttastofunni og hún mun á næstu dögum eiga samtöl við sína næstu starfsmenn, það á bara við um alla sem heyra þar undir.“
Sævar segir Kristínu Þorsteinsdóttur einungis vera ráðna tímabundið í starf aðalritstjóra, en hún muni síðan taka við sem útgefandi á ný.
„Það er síðan óráðið hvort ráðið verður aftur í þetta aðalritstjórastarf. Breytingin gæti falið í sér að það starf verði ekki lengur til,“ segir Sævar.
Auk Kristínar tekur Sigurjón M. Egilsson einnig við nýju starfi, en hann verður fréttaritstjóri 365 miðla. Hvorki náðist í fréttastjórana Breka Logason né Andra Ólafsson vegna málsins, en Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastjóri á Vísi.is, segist í samtali við mbl.is ekki eiga von á að færa sig um set.
„Ég held bara áfram að vakna og mæta í vinnuna,“ segir Kolbeinn.
Frétt mbl.is: Mikael Torfasyni sagt upp