Virknin við upptök Holuhrauns

Bárðarbunga
Bárðarbunga Árni Sæberg

„Ef eldgos verður er skást að fá það utan jökulsins – nema það verði svo mikið að það flæði niður í byggð,“ segir Ólafur G. Flóvenz, jarðeðlisfræðingur og forstjóri Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR), og tekur fram að litlar líkur séu á því. Sérfræðingar félagsins vekja athygli á því að skjálftavirknin í Dyngjujökli sé komin út á jaðar jökulsins og virðist nú vera við aðalupptakagíg Holuhrauns sem liggur norður af miðjum Dyngjujökli og talið er að hafi runnið árið 1797.

Ólafur segir að gígur Holuhrauns sé uppi undir jaðri Dyngjujökuls. Hann vekur athygli á því að jarðskjálftarnir sem taldir eru fylgja kvikuinnskotinu úr Bárðarbungueldstöðinni hafi síðustu daga tekið beint strik á upptök Holuhrauns og séu núna nánast á þeim stað sem gaus úr 1797. „Við erum ekki að spá neinu um þetta en sérkennilegt er að þetta stefni á sama stað. Við erum því að velta því fyrir okkur hvort sama atburðarás sé að endurtaka sig,“ segir Ólafur og tekur jafnframt fram að engin merki séu um að kvikan sé á leið upp á yfirborðið því skjálftarnir séu enn frekar djúpt í jarðskorpunni.

Ef þarna gýs verður atburðarásin væntanlega svipuð og við önnur stór hraungos, að mati Ólafs. „Kvikan hleypur undan megineldstöð og getur þá myndast mikið hraungos í sprungum fyrir utan.“ Ólafur tekur fram að ekki hafi verið gerðar efnagreiningar á Holuhrauni og því ekki vitað hvort það hafi orðið til úr efni frá Bárðarbungu eða jafnvel Öskju.

Magnið óljóst

Eðlisbreyting verður á eldgosi ef það verður á íslausu svæði miðað við eldgos undir jökli eins og hingað til hefur verið reiknað með. Ólafur segir að þegar gos verði undir jökli komist hraunið ekki í burtu heldur safnist upp og bræði ís og vatnið flæði undan jöklinum. Þá splundrist kvikan þegar hún komist upp í vatnið sem liggur undir jöklinum og verði að ösku sem breytist með tímanum í móberg. Gígurinn Gjálp sé gott dæmi um það. Ef eldgosið verði í megineldstöð sé hætta á sprengigosi með mikilli framleiðslu á vikri og ösku. Nefnir hann gosið í Eyjafjallajökli sem dæmi um það þótt það hafi verið fremur lítið.

Hættan á jökulhlaupi minnkar ef aðalvirknin er að færast út fyrir jökulinn. Ólafur segir að ef gosið kæmi upp á íslausu svæði yrði það hraungos, væntanlega með lítilli öskumyndun. Nefnir hann Kröflueldana sem dæmi um það. Ólíklegt sé að það myndi trufla flugumferð.

Ólafur segir ekki hægt að spá fyrir um magnið sem upp komi. Holuhraun sem nú er verið að líta til sé lítið hraun en dæmi séu um Lagagíga og fleiri gos sem orðið hafi utan megineldstöðva en valdið gríðarlegu hraunrennsli.

Ísland myndast

Þótt eldgos verði utan Dyngjujökuls er ekki hægt að fullyrða að ekki myndist sprunga inn í jökulinn. Í grein ÍSOR-manna er bent á að ekki sé vitað um neitt jökulhlaup í Jökulsá á Fjöllum árið 1797. Það styðji þá hugmynd að gosið hafi ekki náð inn undir jökul. Ólafur bætir því við að reikna megi með að gos komi upp þar sem mótstaðan er minnst. Því séu meiri líkur á að sprungan opnist á sléttlendinu utan við jökulinn en inni á honum.

Ólafur segir áhugavert að fylgjast með jarðskjálftunum í norðvestanverðum Vatnajökli. Þar fáist upplýsingar um það hvernig Ísland hefur orðið til. Nefnir hann að neðri hluti jarðskorpunnar sé að mestu leyti gerður af innskotum. Því hafi í sögunni orðið margir innskotsatburðir án þess að nokkur hafi vitað um þá. Kvikan hefur storknað og orðið að berggangi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert