„Skyndilega sótti sá ótti að mér að þarna yrði opnað einn eitt hótelið eða uppblásin lundabúð. Þá áttaði ég mig á að eitthvað yrði að gera í málinu og ég yrði að viðra þessa hugmynd opinberlega áður en það yrði um seinan,“ segir Hildur Kristín Stefánsdóttir, en hún stendur fyrir fésbókarsíðunni World Class í miðbæinn.
Hildur leggur til að fyrirtækið opni líkamsræktarstöð í húsinu við Laugaveg 91, sem oft hefur verið kennt við verslunina Gallerí 17. Hún segir slíka stöð vanta á svæðið, enda sé ekki á færi allra miðborgarbúa að koma sér á Seltjarnarnes eða Laugardal til þess að fá hreyfingu.
„Ég geng framhjá þessu húsi daglega á leið til vinnu og hef oft velt fyrir mér hversu leiðinlegt sé að það standi autt. Það er þó skiljanlegt að fáar búðir geti staðið undir leigunni á þessu stórhýsi. Ég vil samt meina að heilsa almennings trompi lundahótel algjörlega.“
Hildur starfar á Laugaveginum og kveðst vera mikil miðborgarmanneskja.
„Nýlega hófst líkamsræktarkeppni á vinnustaðnum mínum og í kjölfarið hljóp mikið kapp í mig að vinna þessa keppni. Ég áttaði mig því á að eitthvað róttækt þyrfti að gera svo ég gæti komist í besta formið og í staðinn fyrir að kaupa mér hjól fannst mér skynsamlegra að biðja bara World Class að koma til móts við mínar þarfir,“ segir Hildur.
Hún segir að opnun stöðvar myndi þjóna fleirum en henni og hún heyri fólk reglulega pirra sig á líkamsræktarskortinum á svæðinu. Hún segir stofnun fésbókarsíðunnar í raun vera „nútímalega undirskriftasöfnun“.
„Eitt „læk“ segir oft meira en undirskrift,“ segir Hildur.
Aðspurð hvers vegna hún skori einungis á World Class, en ekki aðrar líkamsræktarstöðvar, segir hún það helst koma til vegna kortaeignar sinnar í stöðinni. Einnig telur hún að World Class sé eitt fárra fyrirtækja sem gætu staðið undir húsnæðisleigu á svæðinu.
Hildur bendir jafnframt á að algjört gat sé í víðfeðmu neti World Class-stöðva, enda brúi engin stöð bilið frá Kringlu og að Seltjarnarnesi. Gatið má sjá á meðfylgjandi mynd. Hún segist ekki í nokkrum vafa um að miðborgarbúar myndu fjölmenna í nýja stöð og jafnvel gætu verslunarmenn á Laugavegi fundið sér góða dægradvöl með ferð í ræktina.
„Einu aðilarnir sem gætu kannski orðið ósáttir væru eigendur öldurhúsa, því ég sé fyrir mér að það að „hitta fólk í hnébeygju“ gæti orðið hið nýja „hittast í bjór“,“ segir Hildur.