Nú laust fyirr hádegi, eða klukkan 11:56, varð jarðskjálfti við jökulsporðinn í Dyngjujökli. Hann var 4,6 að stærð og á 8km dýpi. Nokkrar tilkynningar hafa borist frá Akureyri um að hann hafi fundist þar. Skjálftavirkni er enn mjög mikil og rúmlega 500 skjálftar hafa mælst frá miðnætti.
Berggangurinn undir Dyngjujökli er nú talinn vera hátt í 40 km langur og benda líkanreikningar byggðir á GPS mælingum til þess að rúmmálsaukningin síðasta sólarhringinn sé 50 milljónir rúmmetra. Þetta kom fram á fundi vísindamannaráðs í morgun.
Þá mældist klukkan 01:26 í nótt mældist skjálfti af stærðinni 5,7 í Bárðarbunguöskjunni, en síðan hafa ekki orðið stórir skjálftar þar. Engar vísbendingar eru um að dragi úr ákafa atburðanna.
Uppfært klukkan 12.45
Lesendur mbl.is á Austurlandi segjast einnig hafa fundið fyrir jarðskjáltanum, meðal annars á Vaðbrekku.