Tónlistarmaðurinn Oddur Hrafn Stefán Björgvinsson neitaði sök við þingfestingu ákæru á hendur honum í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Oddur Hrafn, betur þekktur sem Krummi í Mínus, er ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni.
Honum er gefið að sök að hafa ráðist með ofbeldi á lögreglumann við skyldustörf við Snorrabraut í Reykjavík hinn 12. júní 2013. Í ákærunni segir að hann hafi sparkað í hægri fótlegg lögreglumannsins. Oddur Hrafn mætti til þingfestingar kl. 8:50 í morgun ásamt lögmanni sínum, Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni.
Lögfræðingur Odds Hrafns óskaði eftir ýmsum gögnum frá saksóknara í málinu, þ.á m. dagbókarfærslum lögreglu eftir meint brot, upplýsingum um hvar og í hvaða tölvur lögreglumenn slógu inn upplýsingar um málið og upplýsingum um lögreglukonu sem að sögn var á staðnum þegar meint brot átti sér stað en var ekki getið í gögnum málsins. Jafnframt var óskað eftir áverkavottorði eða myndum af áverkum lögreglumannsins.
Brotið telst varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Hún hljóðar svo:
„Hver, sem ræðst með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu eða út af því, og eins hver sá, sem á sama hátt leitast við að hindra framkvæmd slíks starfa eða neyða starfsmanninn til þess að framkvæma einhverja athöfn í embætti sínu eða sýslan, skal sæta …1) fangelsi allt að 6 árum. [Ef brot samkvæmt þessari málsgrein beinist að opinberum starfsmanni, sem að lögum hefur heimild til líkamlegrar valdbeitingar, má beita fangelsi allt að 8 árum.]2) [Beita má sektum, ef brot er smáfellt.]3)“
Þess er krafist að Krummi verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Frétt mbl.is: Krummi ákærður fyrir að sparka í lögreglumann