Sýslumaðurinn á Húsavík er að ljúka vinnu við gerð áætlunar um rýmingu vegna hugsanlegs jökulhlaups í Skjálfandafljóti. Hálendið er enn lokað, sem og Jökulsárgljúfur.
Erlendur ferðamaður var í gær stöðvaður á lokuðum vegi sem liggur áleiðis inn á mesta hættusvæðið, við Öskju.
Vísindamannaráð almannavarna telur ekki ástæðu til að breyta mati sínu á ástandinu og hugsanlegum afleiðingum. Það leiðir til þess að viðbúnaði er viðhaldið og svæðin norðan Vatnajökuls og meðfram Jökulsá eru enn lokuð. Jafnframt hefur sýslumaðurinn á Húsavík unnið að rýmingaráætlun fyrir Skjálfandafljót, sem er næsta vatnasvið fyrir vestan Jökulsá, vegna hugsanlegs jökulhlaups. Svavar Pálsson sýslumaður segir að áætlunin verði kynnt á íbúafundi í Ljósvetningabúð annað kvöld og leitað eftir sjónarmiðum fólks.