Óljóst hvar vatnið er

Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna, sagði í samtali við mbl.is í kvöld að við reglubundið flug vísindamanna yfir jökulinn í dag hafi þeir séð það sem þeir töldu að væru nýjar sprungumyndanir. Því var flogið aftur yfir svæðið og þar er að sjá sigkatla að myndast á um fjögurra til sex km kafla. Sennilega séu þeir þrír.

„Það þýðir að þar undir er einhver hiti, það þarf dálítinn hita til að bræða svona mikið. En það sem okkur vantar á móti er að við sjáum ekki eldgosóróa á jarðskjálftamælunum. Það veldur okkur hugarangri,“ sagði Víðir.

Stefnt er að því að fljúga yfir jökulinn klukkan 9 í fyrramálið.

Þetta eru að minnsta kosti 30 milljón rúmmetrar af vatni sem verið er að leita að. Mikinn hita þarf til að bræða svo mikið; annahvort mjög mikinn hita í stuttan tíma eða töluvert mikinn hita í lengri tíma. Ef allt þetta vatn hefði farið af stað í kvöld og allt farið í Jökulsá á Fjöllum þá er um að ræða hlaup sem gæti verið um 5.000 rúmmetrar á sekúndu.

„Hitt sem er óljóst á þessari stundu er hvar þetta vatn er, ef þetta hefur bráðnað á einhverjum löngum tíma. Ef þetta er ekki einhver atburður sem er kominn í gang, þá er spurningin hvar vatnið er. Þetta er á vatnaskilum Grímsvatna og Jökulsár á Fjöllum. Það er því alveg möguleiki að þetta sem bráðnaði hafi lekið í Grímsvötn,“ segir Víðir. Hann bætir við að verið sé að bíða eftir gögnum sem geti staðfest það. Það geti tekið einhvern tíma.

Aðspurður segir hann erfitt að segja til um það hvenær þetta gerðist en ljóst sé að þessir sigkatlar hafi ekki verið þarna þegar flogið var yfir svæðið á laugardag. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, sem var í vélinni í dag, telji að þetta sé nýlegt. Víðir segir hins vegar að aðstæður á jöklinum hafi verið erfiðar í dag.

Víðir segir að almannavarnir séu við öllu búnar. Ekki hafi verið ákveðið að fara í neinar rýmingar. „Ef þetta fer í Grímsvötn þá segir sagan okkur allavega að við höfum dálítinn tíma, þá fer þetta niður á Skeiðarársand og ekki neinir íbúar í hættu,“ segir Víðir og tekur fram að allir samstarfsaðilar á svæðinu hafi verið upplýstir.

Nú er unnið að því að greina upplýsingar í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð. 

Meðfylgjandi myndskeið var tekið í Samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert