Að sögn Veðurstofu Íslands greindust röð sigkatla, 10-15 metra djúpra, í flugi vísindamanna HÍ og VÍ yfir Vatnajökul í kvöld. Þeir mynda 4-6 km línu suður af Bárðarbungu. Katlarnir hafa myndast af völdum mikillar bráðnunar, mögulega eldgoss, en óvíst er hvenær það varð.
Hefðbundinn gosórói hefur ekki greinst á jarðskjálftamælum sem stendur. Verið er að fara yfir þessi gögn.
Á meðfylgjandi ljósmynd má greina sigketilinn sem talin er vera á vatnaskilum Bárðarbungu og Grímsvatna.
Sigketillinn er talinn vera 4-6 km langur og um 10-15 metra djúpur. Ljóst er að umtalsvert magn af vatni hefur bráðnað, eða er að bráðna, á jöklinum og því talin hætta á jökulhlaupi. Ekki er hægt að segja með vissu hversu stór flóðið verður né hvort það mun renna niður Skeiðarársand eða falla í Jökulsá á Fjöllum.