Notkun sýklalyfja hefur minnkað í aldurshópunum 0–4 ára og 15–19 ára undanfarin ár. Þá hefur notkun þröngvirkra sýklalyfja innan heilbrigðisstofnana minnkað milli áranna 2012 og 2013 á meðan notkun breiðvirkra lyfja hefur aukist. Þetta kemur fram í skýrslu sóttvarnarlæknis um sýklalyfjanotkun.
Í frétt á vef landlæknis segir að þetta sé annað árið í röð sem fjallað sé um notkun og næmi í bæði mönnum og dýrum. Sambærileg skýrsla um sýklalyfjanotkun í mönnum hafi verið gefin út í nokkur ár þar á undan.
Niðurstöður skýrslunnar eru að notkun sýklalyfja í mönnum hefur haldist nokkurn veginn óbreytt síðustu ár. Þó hefur notkunin minnkað eilítið síðustu ár í aldurshópunum 0–4 ára og 15–19 ára. Athygli vekur að notkun þröngvirkra sýklalyfja innan heilbrigðisstofnana hefur minnkað milli áranna 2012 og 2013 á meðan notkun breiðvirkra lyfja hefur aukist.
Sýklalyfjanotkun í dýrum fór minnkandi á árunum 2010–2012 en stóð nokkurn veginn í stað milli áranna 2012 og 2013. Sala í flestum lyfjaflokkum minnkaði á tímabilinu 2010–2013 en þó má nefna að sala á lyfjum úr flokki súlfónamíða og trímetópríms hefur aukist um 119% á tímabilinu og þar af um 80% milli áranna 2012 og 2013.
Salmonella og Campylobacter sp. stofnar sem greindust í mönnum á Íslandi 2013 og teljast til innlends smits voru vel næmir fyrir flestum sýklalyfjum sem prófað var fyrir. Þó hefur ónæmi Campylobacter-stofna fyrir cíprófloxacíni verið að aukast á árunum 2009–2012 og vert að fylgjast með því á næstu árum.
Stofnar Salmonella og Campylobacter sp. í kjúklingum og svínum hafa einnig verið vel næmir fyrir þeim sýklalyfjum sem prófað hefur verið fyrir síðustu ár.