Einar falinn á bak við hávaxin tré

Einar Benediktsson
Einar Benediktsson

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til í borgarráði í dag að að styttu Ásmundar Sveinssonar af Einari Benediktssyni verði fundinn nýr staður í borginni. Styttan stendur á Klambratúni en fáir hafa tekið eftir henni þar sem hún stendur falin bak við hávaxin tré.

„Það er eiginlega merkilegt að við skulum ekki gera meira úr minningu Einars,“ segir Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. „Hann var einn mesti skáldjöfur og athafnamaður þjóðarinnar. Akureyringar gera meira úr sínum skáldum en við gerum hér í Reykjavík, af einhverjum ástæðum, og tímabært að við minnumst borgarskáldanna okkar. Við lögðum til í borgarráði að horft verði til Borgartúns í nágrenni Höfða við val á nýjum stað fyrir styttuna.“

Júlíus segir að sem betur fer sé vakning núna og áhugahópur um minningu Einars farinn af stað. „Við viljum að minningu Einars Benediktssonar verði sýndur viðeigandi sómi og tilefnið er að 150 ár eru liðin frá fæðingu hans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert