Hingað til hafa ekki sést ummerki um eldgos á yfirborði jarðar, heldur hafa aðeins verið miklar jarðhræringar. Þeir sigkatlar sem vísindamenn um borð í TF-SIF sáu í flugi sínu yfir Vatnajökul eru sennilega fyrstu ummerki um mögulegt gos við Bárðarbungu.
Yfirborðssprungur, sigdalir, eru að myndast fyrir ofan kvikuganginn, sem hefur verið að brjóta sér leið frá Bárðarbungu. Í Dyngjujökli eru mjög litlit sigkatlar, sem benda til að hiti hafi stigið upp frá ganginum. Það gæti þýtt að gangurinn er á minna dýpi en áður hefur verið talið.
Þegar TF-SIF flaug yfir Bárðarbungu komu hins vegar í ljós sigkatlar sunnan við Bárðarbungu, sem eru ekki í beinum tengslum við kvikuganginn.
Vísindamenn í TF-SIF töldu 10 hringi í sigkötlunum, sem myndast í hring, utan við þekkt sprungusvæði í Bárðarbungu. Staðsetningin er nokkurn veginn á mörkum vatnaskila Jökulsár á Fjöllum í norðri og Grímsvatna í suðri.
Sigkatlarnir sáust ekki í flugi á laugardaginn, sem var síðasta flug yfir svæðið. Vísindamenn vita því ekki hvenær katlarnir hafi myndast. Vatnið, sem gert er ráð fyrir að hafi bráðnað á þessu svæði, er um það bil 30 milljón rúmmetrar. Vatnið hefur ekki komið fram.
Vatnsstaðan í Grímsvötnum hefur hækkað um 10 metra síðan á laugardaginn. Á því geta verið tvær skýringar, annars vegar að eldgos hafi valdið þessari bráðnun, eða að yfirborðsvatn, sem hafi bráðnað vegna sólskins, hafi orsakað hækkunina. Því er ekki hægt að vita með vissu hvað orsakaði þessa hækkun, því sveiflur sem þessar í Grímsvötnum eru ekki óþekkt fyrirbæri á hlýjum dögum.
Ekki er ljóst hvort sigið hafi orðið fyrir heilum fimm dögum eða nokkrum klukkustundum. Því styttra er frá því að sigkatlarnir mynduðust, því meiri orka er að leita upp á yfirborðið og bræða ísinn.
Ein skýring á því að vatnið er ekki komið í Jökulsá á Fjöllum, að því gefnu að bráðnunin hafi orðið á vatnasviði hennar, er að ísinn hafi bráðnað fyrir aðeins nokkrum klukkustundum. Jarðskjálftagögn benda hvorki til vatnsóróa né gosóróa á síðustu klukkustundum. Ef þessi atburður væri að eiga sér stað núna, þá væri hann því mjög lítill.
Almannavarnir horfa því til mælitækja, t.d. við Upptyppinga, sem myndu gefa til kynna ef rennsli í Jökulsá á Fjöllum væri að aukast. Að nóttu er ekki hægt að treysta á sjón í þessum efnum, því það er einfaldlega ekki hægt að sjá neitt úr lofti.
Ef vatnið er hins vegar að leita í Grímsvötn þá þekkist ekki að hlaupórói komi fram á mælum þar. Eitthvað um átta klukkustundir myndu líklega líða frá því að hlaupsóróa verður vart þangað til að vatnið nær til byggða eða vega, svo Almannavarnir hefðu töluverðan tíma til að vara við hugsanlegu hlaupi.
Almannavarnir hafa því ákveðið að fljúga yfir svæðið aftur í fyrramálið, en búist er við að TF-SIF fari í loftið með jarðvísindamenn klukkan 09:00 í fyrramálið og meta hvort breyting hafi orðið frá því í kvöld. Fregna frá fluginu er að vænta um klukkan 11 í fyrramálið.
Hafi breytingar orðið verður hægt að staðfesta með sjónrænum hætti að eitthvað sé að láta á sér kræla undir jöklinum.