Jarðskjálfti sem mældist fimm stig reið yfir klukkan 8:13 í morgun. Upptök hans eru 6,9 km austnorðaustur af Bárðarbungu.
Þetta er stærsti skjálftinn á þessum slóðum í rúman sólarhring. Fljótlega verður flogið með hóp vísindamanna yfir Grímsvötn, Bárðarbungu, Dyngjujökul og Öskjuvatn líkt og í gær en þá sáust þrír sigkatlar um 4-6 km að lengd, 1 km á breidd og 15-20 m djúpir við suðaustanverða Bárðarbungu.
Að sögn Guðrúnar Jóhannesdóttur í samhæfingarstöð almannavarna er búið að fara yfir skjálftann og staðfesta að hann hafi verið fimm stig.
Skjálftinn er óvenjustór miðað skjálftavirknina í nótt og virðist ekkert lát á skjálftum á þessu svæði. Áfram verður fylgst með stöðu mála í samhæfingarstöðinni.