Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að álit EFTA-dómstólsins í verðtryggingamálinu, sem lá fyrir í morgun, sé ekki endanleg niðurstaða í málinu. Dómstóllinn hafi hins vegar komist að þeirri grundvallar niðurstöðu að verðtryggingin sé ekki ólögmæt.
Eins og fram hefur komið á mbl.is í morgun EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit sitt vegna dómsmáls sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn Íslandsbanka hf. Í málinu er deilt um hvort verðtryggingarákvæði í skuldabréfi sem gefið var út í tengslum við fasteignakaup teljist ósanngjarn samningsskilmáli þannig að því megi víkja til hliðar í skilningi a. – c. liðar í 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, með síðari breytingum. Umrædd ákvæði komu inn í samningalögin 1995 með innleiðingu á tilskipun 93/13/EBE, um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum.
„Eins og ég sé það, þá er megin niðurstaðan sú að dómstóllinn tekur ekki skýra afstöðu til þess hvort að reglugerðin taki til þessara samninga. Hann vísar stærstu álitamálunum heim til íslenskra dómstóla. En á sama tíma er ekki komist að þeirri niðurstöðu að verðtryggingin, hvað sem öðru líður, sé ólögmæt. Það er út af fyrir sig ákveðin grundvallar niðurstaða í málinu, en málið heldur áfram fyrir íslenskum dómstólum og þetta er ekki endanleg niðurstaða á nokkurn hátt,“ segir Bjarni