Talið er að vatnsstaða Grímsvatna hafi hækkað um 5 til 10 metra á síðustu dögum, sem samsvarar því að 10 til 30 milljón rúmmetrar af vatni hafi bæst í vötnin. Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi vísindaráðs í morgun, en flogið var yfir Bárðarbungu og svæðið umhverfis í morgun og yfirborð jökulsins kannað.
Fram kemur í niðurstöðum fundarins að ekki hafi orðið vart við breytingar frá því að sprungur sáust í jöklinum í suðaustanverðri Bárðarbungu í gærkvöldi. Talið er að þær hafi myndast vegna bráðnunar við botn.
Þá segir að dældirnar hafi verið staðsettar suðaustur af Bárðarbunguöskjunni, líklega innan vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum. Sprungumyndanirnar eru þrjár og hringlaga, samanlagt um 5 km að lengd. Um er að ræða svæði þar sem jökullinn er um 400-600 m að þykkt.
Búið er að kanna vatnsstöðu Grímsvatna sem talin er að hafi hækkað um 5-10 m á síðustu dögum, sem samsvarar því að 10-30 milljón m3 af vatni hafi bæst í vötnin. Örlítil aukning í leiðni í Köldukvísl mældist í morgun, orsök er óþekkt. Engin breyting hefur mælst í Hágöngulóni og engin breyting í Jökulsá eða Skjálfandafljóti. Talið er að vatn frá sigdældinni hafi runnið í Grímsvötn eða til Jökulsár á Fjöllum.
Skjálftavirkni er svipuð og undanfarna daga. Um miðnættið voru þrír skjálftar u.þ.b. 4 að stærð og einn 5 að stærð kl. 08:13 í morgun, allir í Bárðarbungu.
Skömmu fyrir kl. 8 í morgun jókst skjálftavirkni lítillega í Öskju. Talið er að spennubreytingar vegna gliðnunar af völdum berggangsins hafi áhrif á Öskusvæðinu.
Berggangurinn undir Dyngjujökli hefur lengst 1-1,5 km til norðurs síðan í gær, sem er töluvert minna en undanfarna daga. Hann er nú kominn inn í sprungusvæði Öskju og GPS-mælingar benda til þess að verulegra áhrifa gæti þar.
Nánari upplýsingar og kort af skjálftavirkni má sjá á vef Veðurstofunnar.